Íslensk kona í öskuregni skógarelda

Reykjarmökkurinn og öskuregnið er svo mikið að maður er beðinn að vera innandyra eins mikið og hægt er,“ segir Katrín Gunnarsdóttir, sem býr í Pasadena í Kaliforníu, en skógareldar hafa geisað í fjórum sýslum ríkisins frá því í síðustu viku. Um 800 heimili hafa orðið eldinum að bráð, þar af 500 í Sylmar sem er um 15 mínútna akstur frá Pasadena, að því er Katrín greinir frá.

„Húsin í Sylmar brunnu öll á einu bretti. Talið er að þar hafi látist að minnsta kosti sex manns af völdum skógareldanna en óttast er að margir hafi ekki getað komist út.“

Eldarnir geisa bæði fyrir austan og vestan Pasadena, að sögn Katrínar sem er formaður Íslendingafélagsins á svæðinu. Hún kveðst ekki vita til þess að Íslendingar hafi misst heimili sín eða þurft að yfirgefa þau.

Um 40 stiga hiti var í Pasadena í gær en á þessum árstíma er hitinn venjulega um 20 stig. Ekki hefur rignt á svæðinu síðan í mars.  Eldarnir nú eru taldir þeir verstu í heila öld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert