Telja forsendur ríkisstjórnarsamstarfs brostnar

Félag Samfylkingarinnar í Garðabæ telur að allar forsendur ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn séu nú gjörbreyttar. Því verði að endurnýja umboð stjórnmálaflokkanna allra í síðasta lagi vorið 2009. Þetta var samþykkt á aðalfundi félagsins í gærkvöldi.

„Í þeim samdrætti sem nú blasir við á  Samfylkingin að standa vörð um velferðarkerfi þjóðarinnar. Leita verður allra leiða til þess að draga úr atvinnuleysi og sívaxandi skuldabyrði heimilanna. Forgangsröðun Samfylkingarinnar verður að halda. Fari svo að velferðarkerfinu verði stefnt í hættu, með því að samstarfsflokkurinn setji fram kröfu um flatan niðurskurð eigi að láta brjóta á því.

 Ljóst er að tiltrú almennings á stjórn- og fjármálakerfi þjóðarinnar hefur beðið mikinn hnekki og það er óþolandi að forsvarsmenn þjóðarinnar  bendi nú hver á annan í leit að sökudólgum meðan þjóðin horfir forviða á.

Það er hlutverk Samfylkingarinnar að leiða þá hreinsun sem óumflýjanleg er. Samfylkingin er nýr flokkur, flokkur nýrra tíma og boðberi nýrra stjórnunarhátta. Samfylkingin í Garðabæ telur því eðlilegt að meðal fyrstu aðgerða beiti flokkurinn sér fyrir því að bankaráð og bankastjórn Seðlabankans víki.

Hraða verður rannsókn á bankahruninu og það er einföld og eðlileg krafa að allir sem ábyrgð bera og hvar í flokki sem þeir standa, axli þá ábyrgð.

Samfylkingin hefur leitt og mun leiða umræðuna um aðild að Evrópubandalaginu og ber  því  að hefja aðildarviðræður á næstu mánuðum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert