Uppsveiflan hefst 2010

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Íslenska hagkerfið verður komið aftur í gang árið 2010, að því er Geir H. Haarde forsætisráðherra segir í samtali við þýska viðskiptablaðið Handelsblatt. Geir segir að þýskir sparifjáreigendur í Kaupþingi hafi ástæðu til að hafa minni áhyggjur en fyrir nokkrum vikum síðan.

„Með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins munum við komast fljótt yfir þennan hjalla. Við munum snúa aftur árið 2010,“ spáði Geir í viðtalinu.

Taldi Geir jafnframt að lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum myndi verða samþykkt á næstu dögum, spá sem hefur þegar ræst.

Geir tjáði sig einnig um stöðu um 30.000 þýskra reikningshafa hjá Kaupþingi, nú þegar rúmur mánuður er liðinn frá því að eignir bankans voru frystar þann 9. október síðastliðinn.

„Þeir ættu að hafa minni áhyggjur en fyrir nokkrum vikum síðan,“ er haft eftir Geir í viðtalinu.

Málið hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi og þýska fjármálaráðuneytið séð ástæðu til að minna reikningshafa á að innistæður þeirra séu tryggðar fyrir að lágmarki 20,900 evrum, rúmlega 3,5 milljónum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert