Gagnrýni of harkaleg segir Geir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, telur að gagnrýni á gjaldeyrislögin, sem samþykkt voru í nótt, sé of harkaleg. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur sagt að lögin munu stórskaða íslenskt viðskiptalíf , fyrirtækin fari jafnvel í auknum mæli að skipta við erlenda milliliði og geyma fé erlendis vegna laganna og þannig vinni þau í raun gegn markmiðum sínum.

Geir sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að þessi hætta væri fyrir hendi  ef lögin væru hugsuð til frambúðar. Þau ættu hinsvegar  aðeins að koma í veg fyrir fjármagsnflótta til skamms tíma og yrðu jafnvel endurskoðuð í mars.  Fyrirtækin verði að átta sig á því að þetta sé gert til að sporna gegn kollsteypu gengisins og það sé í þeirra þágu. Hann geti ekki ímyndað sér að þau fari viljandi að grafa undan því markmiði.

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, krafðist þess í gær að stjórn Seðlabanka Íslands og yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins segði af sér tafarlaust og axlaði þannig þá ábyrgð sem þeim ber. Þá vildi félagið sjá breytingar á ríkisstjórninni. Geir H. Haarde sagði að eins og sakir standa væri ekki unnið að neinum breytingum á stjórn Seðlabankans. Hann væri ósammála ályktun Heimdallar og hann vísaði á bug því sem sagt væri um ríkisstjórnina. Það væri hinsvegar málfrelsi í Sjálfstæðisflokknum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert