Unnið að lausn á fjármálum Árvakurs í vikunni

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. mbl.is/ÞÖK

Árvakur og Nýi Glitnir hafa sammælst um það að vinna að framtíðarlausn á fjármálum Árvakurs sem tryggi félaginu rekstrargrundvöll til framtíðar. Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki fyrir lok vikunnar. Af hálfu Árvakurs verður þessi vinna undir forystu forstjóra og stjórnar félagsins.

Árvakur hefur átt við alvarlegan lausafjárvanda að stríða og skuldir félagsins hafa hækkað verulega með gengisfalli krónu.

Fram kemur í tilkynningu frá Árvakri að gert sé ráð fyrir því að niðurstaðan feli í sér endurfjármögnun félagsins með nýju hlutafé og að núverandi hlutafé verði fært niður í núll. Áhersla sé lögð á það af hálfu bankans og Árvakurs að endurfjármögnun félagsins fari fram í opnu og gegnsæju ferli. Af hálfu Árvakurs verður þetta verkefni unnið undir forystu stjórnenda félagsins og með það að markmiði að breikka eignarhald á félaginu.

Þór Sigfússon, stjórnarformaður Árvakurs, sagði í dag að mikil vinna væri framundan við að ljúka málinu, en að mati félagsins hefði náðst mikilvægur áfangi.

„Meginmarkmið okkar er að tryggja hnökralausa útgáfu Morgunblaðsins og mbl.is, tveggja miðla sem hafa algera sérstöðu á markaðnum. Mikilvægi þessara miðla í samfélaginu hefur komið gleggst fram í því ástandi sem nú er í efnahagsmálum. Við munum því leggja allt kapp á að ljúka þessu máli farsællega. Starfsmenn Árvakurs hafa sýnt félaginu alveg einstakan hug og velvilja í þessum sviptingum. Það eru sannarlega forréttindi að fá að leiða slíkan hóp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert