Fjölnir í úrvalsdeild

Fjölnismenn fagna í leikslok.
Fjölnismenn fagna í leikslok. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjölnir tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik með því að vinna Þór frá Akureyri með minnsta mun, 24:23, í oddaleik í Fjölnishöllinni í Egilshöll.

Fjölnir vann einvígið 3:2 og leikur á meðal þeirra bestu á næsta tímabili.

Gestirnir frá Akureyri voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með þremur mörkum 11:14, í hálfleik.

Þórsarar hófu síðari hálfleikinn sömuleiðis af krafti, skoruðu fyrstu tvö mörk hálfleiksins og náðu þannig fimm marka forystu, 11:16.

Þá skellti Fjölnir nánast í lás og var búinn að snúa taflinu við þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Staðan var þá orðin 18:17, heimamönnum í vil.

Fjölnir herti enn tökin og komst fjórum mörkum yfir, 22:18, en þá hóf Þór áhlaup og jafnaði metin í 22:22.

Heimamönnum tókst í kjölfarið að skora tvö mörk, það síðara þegar einungis 13 sekúndur lifðu leiks. Þór minnkaði muninn á lokasekúndunni en var það um seinan. Dýrmætur eins marks sigur Fjölnis reyndist því niðurstaðan.

Stórleikur Kristjáns dugði ekki til

Björgvin Páll Rúnarsson og Elvar Þór Ólafsson voru markahæstir í liði Fjölnis með sjö mörk hvor.

Sigurður Ingiberg Ólafsson varði þá níu skot í marki liðsins.

Aron Hólm Kristjánsson var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir Þór. Brynjar Hólm Grétarsson bætti við sex mörkum.

Kristján Páll Steinsson átti stórleik í marki Þórs með 15 varin skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert