Hörður óvenjuleg byltingarhetja

Hörður Torfason hefur látið til sín taka undanfarnar 8 vikur
Hörður Torfason hefur látið til sín taka undanfarnar 8 vikur Kristinn Ingvarsson

Herði Torfasyni er lýst sem óvenjulegri hversdagshetju í grein í breska dagblaðinu Guardian í dag. Þar segir frá því að þúsundir reiðra Íslendinga fylli Austurvöll um hverja helgi til að krefjast afsagnar þingmanna og seðlabankastjóra, en forsprakki þeirra sé ólíklegur byltingarmaður við fyrstu sýn.

„Á sviðinu frammi fyrir hverri mótmælaaðgerð stendur grannvaxinn maður með gleraugu, Hörður Torfason, sem lýst er í fjölmiðlum sem leiðtoga mótmælenda, en virðist við fyrstu sýn vera ólíklegur byltingarsinni,“ segir í grein blaðamannsins Jon Henley.

Þá er starfsferli Harðar lýst, sagt frá störfum hans sem leikara, leikskálds og trúbadors sem hafi fyrst látið til sín taka þegar hann var fyrsti þjóðþekkti Íslendingurinn til að koma út úr skápnum og flýði í kjölfarið nánast í útlegð til Kaupmannahafnar.

Vitnað er í Hörð þar sem hann segir að þrátt fyrir að hafa aldrei verið pólitískur taki hann þessa afstöðu í dag þar sem hann standi í þeirri trú að hlutverk listamannsins sé að gagnrýna sitjandi yfirvald. Stjórnvöld hafi brugðist þjóðinni og allt stjórnkerfið á Íslandi hafi reynst gjörspillt og úr sér gengið. Loks segir að þar sem Hörður sé „borgaralegur, manneskjulegur og eitilharður, virðist hann einhvern veginn viðeigandi hetja í nýjustu, og hugsanlega ógnvænlegustu, Íslendingasöguna til þessa.“

Greinin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert