Ekki skylda að fylgjast með heimasíðu Vegagerðar

mbl.is/Skapti

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað flutningabílstjóra af ákæru fyrir að ekið of þungum bíl um Suðurlandsveg í desember í fyrra. Vegagerðin auglýsti þungatakmarkanir á veginum  í texavarpi Sjónvarpsins og á heimasíðu sinni. Dómurinn taldi hins vegar að ekki væri hægt að skylda bílstjóra til að fylgjast með þessum miðlum.   

Fram kom í málinu, að ásþungatakmörkun fyrir Suðurlandsveg hefði verið sett daginn áður. Starfsmenn Vegagerðarinnar sögðu, að tilkynningar færu þannig fram að merkingar væru settar upp sitthvoru megin við þéttbýlisstaði en ekki við aðra vegi þar sem þungatakmarkanir væru fyrir. Auk þess væri sendur tölvupóstur á alla flutningsaðila og tilkynning væri sett á heimasíðu Vegagerðarinnar. 

Bílstjórinn var stöðvaður við Skeiðavegamót en hann var að koma frá bæ utan við Hellu. Hann sagðist ekki hafa aðgang að tölvupósti og ekki hafa fengið nein fyrirmæli um að hann þyrfti að vera í slíku sambandi. Þá sagðist hann almennt lítið hlusta á útvarp þar sem hann hefði lítinn tíma til þess og hefði hann ekki heyrt umræddar þungatakmarkanir auglýstar í þetta sinn. 

Dómarinn segir í niðurstöðu sinni, að  sú skylda verði ekki lögð á vegfarendur að kynna sér sérstaklega hvort Vegagerðin hafi sett tilkynningar á textavarp Sjónvarpsins, heimasíðu Vegagerðarinnar, tilkynnt einstökum flutningsfyrirtækjum, eða auglýst í útvarpi, um breyttan ásþunga á vegum. Engar vegamerkingar hefðu verið á leið bílstjórans þar til hann var stöðvaður við Skeiðavegamót og því væri ekki komist hjá því að sýkna hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert