Frekar kosningar en að láta undan dulbúnum hótunum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/GSH

Í ályktun, sem fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum samþykkti í gærkvöldi, er Geir H. Haarde, formaður flokksins, hvattur til að bregðast við hótunum ráðherra samstarfsflokksins í ríkisstjórn og boða frekar til alþingiskosninga en að láta undan dulbúnum hótunum, þar sem reynt sé að hafa áhrif á væntanlegar ályktanir næsta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í mikilvægum málaflokkum.

„Samstarfsflokkurinn hefur með orðum sínum lýst vantrausti á sín eigin störf og dugir þar að benda á að tveir af ráðherrum hans hafa lýst vantrausti á eigin ríkistjórn. Þá þarf vart að minna á orð formanns samstarfsflokksins þess efnis að ef hún væri ekki sjálf í ríkisstjórn þá væri hún á Austurvelli að mótmæla eigin gjörðum," segir í ályktuninni.

Þar segir einnig, að öllum megi vera ljós, að ekki sé víst að hagsmunir landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins fari að öllu leyti saman þegar komi að mögulegri aðild að Evrópusambandinu. Því harmi fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum þá ákvörðun að enginn af 14 verkstjórum málefnaflokka í Evrópunefnd flokksins skuli koma af landsbyggðinni heldur séu þeir allir með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Gildi þar einu þótt formaður þriggja manna nefndarinnar sé þingmaður af landsbyggðinni.

Þá harmar fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum þá ákvörðun að fella sjávarútvegsmál undir auðlindamál almennt og að enginn verkstjóra málefnaflokka skuli starfa við veiðar og vinnslu. Fyrirfram sé vitað að ágreiningur um aðild að ESB er varhugaverður vegna gríðarlegs mikilvægis sjávarútvegs í íslenskum þjóðarbúskap.

Ályktunin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert