Segja eftirlaunafrumvarp kattarþvott

Ögmundur Jónasson í ræðustól á Alþingi
Ögmundur Jónasson í ræðustól á Alþingi mbl.is/ÞÖK

„Þetta er kattarþvottur hjá ríkisstjórninni þó hún sé að stíga örlítið skref,“ sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, í umræðum um eftirlaunafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráðherra mælti fyrir því á ellefta tímanum í gærkvöld.

Frumvarpinu er ætlað að færa lífeyrisréttindi æðstu ráðamanna nær kjörum almennings og koma þannig til móts við mikla gagnrýni sem eftirlaunalögin frá árinu 2003 hafa sætt. Allir flokkar stóðu að frumvarpinu á sínum tíma en þáverandi stjórnarandstöðuflokkar féllu einn af öðrum frá stuðningi við það.

Ögmundur sagði nýja frumvarpið alls ekki ganga nógu langt enda afnæmi það ekki sérréttindakjör þingmanna og ráðherra. Gagnrýndi hann hversu seint frumvarpið kom fram og sagði að miðað við þau réttindi sem ráðherrar ávinna sér árlega þýddi þessi töf að þeir fengju aukalega tæpar 50 þúsund krónur á mánuði í lífeyrisgreiðslur þegar þar að kæmi.

Boðaði Ögmundur breytingartillögur þess efnis að sama gildi um lífeyrisréttindi ráðamanna og annarra opinberra starfsmanna og að þess yrði óskað að hver og einn þingmaður gerði grein fyrir afstöðu sinni.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, tók í sama streng og sagði sinn flokk vilja afnema sérréttindin. Hún og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslyndra, voru bæði ósátt við að málið skyldi rætt svo seint að kvöldi og að til stæði að afgreiða það í svo miklum flýti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert