Færri Contalginfíklar

Notkun Contalgins (morfíns) hefur minnkað verulega á undanförnum árum hjá notendum yngri en fertugum. Þetta bendir til þess að misnotkun lyfsins hafi farið minnkandi og er það m.a. þakkað persónugreinanlegum lyfjagagnagrunni sem landlæknisembættið starfrækir.

Þetta kemur m.a fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu Möller, þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Ásta spurði um hvaða upplýsingar Tryggingastofnun og Lyfjastofnun og landlæknir hefðu unnið úr lyfjagagnagrunninum frá því hann tók til starfa árið 1994.

Fram kemur í svari heilbrigðisráðherra að Tryggingastofnun hefur aðgang að ópersónugreinanlegum tölfræðigagnagrunni sem m.a. veitir upplýsingar um heildarlyfjakostnað og notkun lyfja, kostnað einstakra lyfjaflokka, greiðslumerkingu og skiptingu milli einstakra hópa notenda og aldursdreifingu. Þessar upplýsingar eru notaðar til að hafa eftirlit með lyfjakostnaði og þróun kostnaðar, við áætlanagerð, samanburð við önnur lönd og til rannsókna.

Þá kemur fram að landlæknir starfsrækir persónugreinanlegan lyfjagagnagrunn en Tryggingastofnun getur óskað eftir upplýsingum úr honum í skilgreindum tilvikum.

„Rifja má upp að helsta ástæða þess að persónugreinanlegum lyfjagagnagrunni var komið á samkvæmt lögum var sú staðreynd að til umræðu höfðu komið á Alþingi dauðsföll sem rekja mátti til lyfja sem einstaklingar höfðu fengið útskrifað hjá læknum. Alkunna er að lyfjafíklar sækjast mjög eftir ávanabindandi lyfjum. Lengi hefur verið hægt að fylgjast með svokölluðum eftirritunarskyldum lyfjum, sem eru hættulegustu lyfin, en með tilkomu lyfjagagnagrunnsins var hægt að fylgjast með útskriftum allra lyfja utan sjúkrahúsa og stofnana. Notkun lyfjagagnagrunnsins fyrst í stað var ekki síst eftirfylgd með slíkri lyfjanotkun. Ábendingar koma oft frá starfandi læknum, sem hafa grun um lyfjamisnotkun sjúklinga sem til þeirra leita. Enn frekari lyfjanotkun undir slíkum kringumstæðum getur leitt til veikinda og dauða, eins og dæmin sanna. Læknar eru því skiljanlega á verði. Upplýsingar úr lyfjagagnagrunni í framhaldi slíkra ábendinga til landlæknisembættisins leiða oft til þess að skrifuð eru bréf til viðkomandi lækna og mælst til þess að einungis einn læknir skrifi út slík lyf fyrir viðkomandi sjúkling. Í einstaka tilvikum hafa vaknað grunsemdir um að ákveðnir læknar væru of útbærir á lyf. Hefur lyfjagagnagrunnurinn hjálpað til við rannsókn slíkra mála, en þau eru þó fá,“ segir í svari heilbrigðisráðherra.

Frumtilgangur persónugreinanlegs lyfjagagnagrunns var að hindra að fólk misnotaði og færi sér að voða með ávanabindandi lyfjum. Með hjálp lyfjagagnagrunnsins hefur þetta eftirlit verið hert. Þá segir að notkun Contalgins hafi minnkað verulega á undanförnum árum hjá fólki undir fertugu. Það bendi til þess að dregið hafi úr misnotkun lyfsins.

„Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, hefur opinberlega og í fjölmiðlum sagt frá því að morfínfíklum hafi fækkað á Vogi og þakkar það lyfjagagnagrunninum og auknu lyfjaeftirliti landlæknisembættisins.
Mikil notkun methylphenidats hefur verið rannsökuð með hjálp lyfjagagnagrunnsins og hún borin saman við notkunina í öðrum löndum. Það efni hefur verið kynnt á mörgum ráðstefnum og hefur leitt til aukinna umræðna um slíka meðferð. Hröð aukning varð á slíkri lyfjameðferð hjá börnum til ársins 2004, en eftir það hefur aukningin stöðvast. Þessi umræða leiddi meðal af sér ítarlegar vinnureglur landlæknisembættisins við notkun ADHD-lyfja.
Upplýsingar til lækna um lyfjaávísanavenjur þeirra hafa aukið áhuga læknanna á að nota gagnreynd lyf og ódýr. Vert væri að rannsaka þau mál nánar og er slíkt í bígerð. Þetta þyrfti helst að setja upp sem vísindalega rannsókn, því margir aðrir þættir hafa jafnframt áhrif á ávísanavenjur lækna. Læknar hafa hins vegar verið þakklátir slíkri umfjöllun og áhugi verið mikill,“ segir í svari heilbrigðisráðherra.

Svar heilbrigðisráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert