Þjófurinn lenti í sjónum

Lögreglan á Selfossi handtók í gær þrjá menn vegna gruns um innbrot í bát sem var við bryggju í Þorlákshöfn.

Útgerðarmaður bátsins hafði átt leið niður að höfn þegar hann sá til manns um borð í bátnum. Hann fór að huga að hverju það sætti. Eitthvað fór um þann sem var um borð sem lagði á flótta en tókst ekki betur til en svo að hann lenti í sjónum á milli báts og bryggju. Útgerðarmanninum tókst að veiða manninn upp úr sjónum og koma honum á land. Um leið og maðurinn hafði fast land undir fótum, tók hann á sprett og inn í bifreið, sem í voru tveir menn, sem ekið var í burtu.

Útgerðarmaðurinn sá strax og hann fór um borð í bátinn að tölva, lyf og annað var horfið. Talið er líklegt að maðurinn sem fór í sjóinn hafi verið með það í fanginu þegar hann lenti í sjónum. Lögreglumenn fundu bifreiðina fljótlega þar sem henni var ekið eftir Þorlákshafnarvegi.  Ökumaður var einn í bifreiðinni. Hann var handtekinn vegna gruns um aðild að þjófnaðinum og að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Í ljós kom að skráningarnúmer sem voru á bifreiðinni tilheyrðu öðru ökutæki. Hinir tveir mennirnir voru síðar handteknir í heimahúsi í Þorlákshöfn. Mennirnir verða yfirheyrðir í dag. Ökumaðurinn var sviptur ökurétti til bráðabirgða vegna meints fíkniefnaaksturs. Þessir sömu menn voru grunaðir um að hafa fyrr um daginn reynt að smygla fíkniefnum inn á lóð Litla – Hrauns með því að kasta þeim yfir girðinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert