Sjálfstæðismenn í Árborg vilja fækka bæjarfulltrúum

mbl.is

Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn Árborgar lögðu í gær fram tillögu um að bæjarfulltrúum sveitarfélagsins yrði fækkað úr níu í sjö. Slíkt er heimilt samkvæmt lögum, enda íbúar í sveitarfélaginu vel innan við 9.999 manns.  Þá leggja Sjálfstæðismenn til að bæjarstjóri sveitarfélagsins sé ekki á launum sem bæði bæjarfulltrúi og bæjarstjóri á sama tíma, eins og nú er. Þessar tillögur voru lagðar fram á fundi bæjarstjórnar, þar sem rætt var um fjárhagsáætlun og breytingar á bæjarmálasamþykkt sveitarfélagsins, að því er segir í tilkynningu.

„Þarna er mikilvægt skref stigið. Þetta er í fyrsta skipti – að mér vitandi – sem það kemur fram tillaga um að fækka kjörnum fulltrúum í stjórnsýslunni. Það eðlilegt að við, sem höfum verið valin til starfa í kosningum, göngum í takt við atvinnulífið og hagræðum svo að ekki falli aukinn kostnaður á borgarana,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg, í fréttatilkynningu.

Á fundinum í gær var ákveðið að fresta afgreiðslu málsins til 14. janúar, en Eyþór segist vongóður um að tillögur D-listans nái fram að ganga.

„Allir sveitarstjórnarmenn í  Árborg gera sér grein fyrir því að nú þarf að sína aðhald og passa upp á hverja krónu. Við gerum því ekki ráð fyrir öðru en að félagar okkar í bæjarstjórn taki undir tillögur okkar um að sína ráðdeild í þessum efnum,“ segir Eyþór ennfremur í fréttatilkynningu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert