Framboðsfrestur hjá VR framlengdur

Tillögu Gunnars Páls Pálssonar, formanns VR, um að flýta stjórnarkjöri …
Tillögu Gunnars Páls Pálssonar, formanns VR, um að flýta stjórnarkjöri var vel tekið á fjölmennum félagsfundi á Grand Hótel í nóvember. Tillöguna bar Gunnar fram til þess að koma í veg fyrir að félagið klofnaði. mbl.is/Kristinn

Kjörstjórn VR hefur ákveðið að framlengja framboðsfrest vegna kjörs formanns, stjórnar og trúnaðarráðs félagsins. Framboðsfrestur rann út 22. desember og barst aðeins eitt framboð til formanns. Kjörstjórn telur að misskilnings hafi gætt um lög og reglur sem kunni að hafa orðið til þess að áhugasamir skiluðu ekki inn framboði. Því var ákveðið að framlengja frestinn til 12. janúar.

Í tilkynningu kjörstjórnar VR segir að alvarlegur misskilningur hafi komið upp hvað varðar reglur skv. lögum VR um framboð til formanns, stjórnar og trúnaðarráðs félagsins í tengslum við framboðsfrest sem auglýstur var til kl. 12:00 á hádegi 22. desember sl. Ástæða sé til að ætla að þetta hafi orðið til þess að einhverjir félagsmenn VR sem höfðu áhuga á að bjóða sig fram til forystu í félaginu hafi ekki skilað inn framboðum fyrir tilsettan tíma.

Þess vegna hafi kjörstjórn VR ákveðið að framlengja framboðsfrest til formanns, stjórnar og trúnaðarráðs til kl. 12:00 á hádegi mánudaginn 12. janúar 2009.

„Kjörstjórn VR mun láta birta auglýsingar í dagblöðum um framlengdan framboðsfrest eins fljótt og auðið er. Jafnframt verður auglýsingin birt á heimasíðu VR og send á trúnaðarmenn félagsins til upplýsingar. Einnig mun kjörstjórnin birta á heimasíðu VR leiðbeiningar til þeirra sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til forystu í félaginu,“ Segir í tilkynningu kjörstjórnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert