Verulegir hnökrar á áætlun Strætó í Hvalfjarðarsveit

Strætó bs hóf í morgun akstur á nýrri leið frá Borgarnesi og sem leið liggur um Hvalfjarðarsveit, á Akranes og þaðan til Reykjavíkur. Einhverjir hnökrar hafa komið upp í morgun og misskilnings gætt t.d. meðal farþega á Akranesi. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.

Þar segir að fólk hafi jafnvel ruglast á hvað sé innanbæjarstrætó og hver færi suður.

„En stærstir eru þessir hnökrar þó óneitanlega í Hvalfjarðarsveit þar sem vagninn stoppar alls ekki! Farþegar sem þar hugðust nýta sér ferðir vagnanna í morgun gripu í tómt. Vagn sem átti að stoppa í Melahverfi klukkan 07:28 skv. áætlun stöðvaði ekki þar né heldur við Hvalfjarðargöngin klukkan 07:54. Þórhallur Halldórsson, deildarstjóri farþegaþjónustu Strætó sagði í samtali við Skessuhorn í morgun að í ljós hafi komið skömmu fyrir áramót að Vegagerðin bannar Strætó að stöðva vagnana á þjóðveginum vegna umferðaröryggis,“ segir á vef Skessuhorns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert