Stjórn VR langþreytt á rangfærslum

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, á fjölmennum félagsfundi á Grand …
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, á fjölmennum félagsfundi á Grand Hótel í nóvember. Þar var ákveðið að flýta stjórnarkjöri til þess að koma í veg fyrir að félagið klofnaði. mbl.is/Kristinn

„Við í stjórn VR erum orðin langþreytt á rangfærslum og ómálefnalegum málflutningi þeirra sem segjast vilja breytingar í stjórn félagsins,“ segir í yfirlýsingu sem níu stjórnarmenn í félaginu sendu frá sér.

Stjórnarmennirnir senda Lúðvík Lúðvíkssyni tóninn, en Lúðvík fer fyrir hópi félagsmanna sem vilja breytingar í stjórn félagsins.

Stjórnarmenn VR segja að Lúðvík sýni ítrekað vankunnáttu í málefnum félagsins, sem hann vilji stjórna. Hverjum þeim sem stýra vill 28 þúsund manna félagi verði að vera ljóst að hann verði að treysta á eigin burði til að kynna sér lög og reglur.

Þá segir í yfirlýsingunni að öllum félagsmönnum sé að sjálfsögðu frjálst að leggja fram nýjan framboðslista en hann verði að vera í samræmi við lög VR. Enginn starfsmaður VR geti breytt nokkru þar um og aðeins sé hægt að breyta lögum félagsins á aðalfundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert