Reynt að leysa mál Tónlistarhúss

Vinna við Tónlistarhúsið hefur legið niðri frá áramótum.
Vinna við Tónlistarhúsið hefur legið niðri frá áramótum. mbl.is/Árni Sæberg

Austurhöfn og nýi og gamli Landsbankinn hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að unnið sé að því að leysa málefni Portusar hf., byggingaraðila Tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar, og tryggja þannig framgöngu verkefnisins.

„Allir þeir sem að málinu koma hafa frá upphafi haft fullan vilja til að finna því farsæla lausn og unnið ötullega að framgangi þess á undanförnum vikum. Lausn málsins hefur dregist sökum umfangs verkefnisins og flókinna hagsmunatengsla málsaðila.

Allt kapp hefur verið lagt á að ná fram ásættanlegri tillögu sem hefur það að markmiði að tryggja byggingu Tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar," segir í yfirlýsingunni.

Íslenskir aðalverktakar hafa frestað tímabundið framkvæmdum við byggingu hússins þar sem fyrirtækið hefur ekki fengið greitt frá því í haust. Framkvæmdirnar áttu að hefjast aftur í gær að afloknu jólaleyfi starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert