Fá að kynnast málstað Íslands

Fánar 46 aðildarríkja blakta utan við byggingu Evrópuráðsins í Strassborg.
Fánar 46 aðildarríkja blakta utan við byggingu Evrópuráðsins í Strassborg. mbl.is/GSH

„Það sem við viljum fyrst og fremst er að vekja athygli á þessu máli, halda því vakandi og virkilega fá fólk til að skilja um hvað þetta snýst," segir Guðfinna Bjarnadóttir þingmaður, sem fer fyrir Íslandsdeild Evrópuráðsins. „Ég hef tekið eftir því að evrópskir þingmenn átta sig alls ekki á því í hvaða stöðu við erum í og hvaða afleiðingar hryðjuverkalöggjöfin hafði á okkur."

Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins samþykkti í dag beiðni Íslands um að sú aðgerð breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi 8. október sl. yrði tekin til meðferðar bæði í laga- og mannréttindanefnd og viðskipta- efnahagsnefnd Evrópuráðsþingsins. Auk Guðfinnu eiga Ellert B. Schram og Steingrímur J. Sigfússon sæti í Evrópuráðinu fyrir Íslands hönd

„Fyrst og fremst þýðir þetta það að 47 aðildarríki Evrópuráðsins fá að kynnast málinu; því sem gerðist við beitingu hryðjuverkalaga frá 8. október, afleiðingum þess fyrir íslenskan almenning, efnahag og fjármálakerfið í heild sinni," segir Guðfinna. „Laga- og mannréttindanefndin annars vegar og viðskipta- og efnahagsnefndin hins vegar munu taka þetta málefni til meðferðar og skila einhvers konar áliti eða ályktun um málið."

Hún segir flest benda til þess að beiting hryðjuverkalaganna hafi ekki verið ólögleg, enda innihaldi þau afar víðtækar heimildir. „Niðurstaða nefndanna yrðu þá vera frekar á þá vegu að þeir bentu á að þarna hafi nánast verið níðst á okkur. Að það hafi ekki verið réttlætanlegt að beita þessum úrræðum."

Ekki eru takmörk á þeim tíma sem nefndirnar hafa til að fjalla um málið að sögn Guðfinnu. „ Aðalmálið er að halda málinu vakandi og útskýra hvað hafi gerst." Hún bætir því við að aðgerðir Breta gegn Íslendingum hafi í raun verið þríþættar. Í fyrsta lagi beiting hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum, í öðru lagi greiðslustöðvun Singer og Friedlander sem hafi jafnvel verið einn af aðalorsökum þess að Kaupþing féll og loks ummæli þeirra Gordons Brown og Alistairs Darling.

Seinna í mánuðinum þingar Evrópuráðið, en þing þess eru haldin á þriggja mánaða fresti. „Þar verða efnahagsmálin tekin fyrir í stærra samhengi og við Íslandsdeildarþingmennirnir munum þá fjalla um þessi mál. Við, sem störfum á vegum Íslands, eigum öll að láta í okkur heyra að mínu viti. Ég mun nota tækifærið til að fordæma þetta og leggja á það þunga áherslu að þetta hafi virkilega skemmt fyrir okkur Íslendingum í þeirri verstu stöðu sem við höfum fundið okkur í í efnahagsmálum."

Guðfinna Bjarnadóttir.
Guðfinna Bjarnadóttir. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert