20 þúsund lífeyrisþegar fá kröfuyfirlit

mbl.is/Árni Torfason

Í liðinni viku sendi Tryggingastofnun ríkisins, (TR) út bréf til 20 þúsund lífeyrisþega ásamt kröfuyfirliti sem nú eru að berast inn um lúgur lífeyrisþega.

Á kröfuyfirlitinu er að finna upplýsingar um skuldastöðu hvers og eins. Bæði eru birtar upplýsingar um gjaldfallnar kröfur sem ekki hefur verið samið um endurgreiðslu á og kröfur sem búið er að semja um. Ef vitað er um ógjaldfallnar kröfur sem koma til innheimtu síðar á árinu eru þær einnig birtar.

Ýmsar leiðir eru til að endurgreiða of háar bætur og getur TR meðal annars samið um endurgreiðslur með samningum sem eru sniðnir að greiðslugetu hvers og eins.

Möguleiki á lengri greiðsludreifingu

Í bréfi sem fylgir kröfuyfirlitinu er sérstaklega tekið fram að ef aðstæður hafa breyst verulega vegna breyttra aðstæðna í efnahagslífinu sé möguleiki á lengri greiðsludreifingu, en rök þurfi að fylgja slíkri umsókn. Almenna reglan er sú að tekin er 20% af tekjutengdum bótum. Ef samið er um lægri greiðslu getur hún lægst orðið 3.000 krónur á  mánuði.

TR hefur heimild til að fella niður kröfur að hluta eða öllu leyti ef sérstaklega stendur á og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Umsóknir um niðurfellingar verða að vera skriflegar og vel rökstuddar.

Hvernig myndast ofgreiðslur?

Ástæða fyrir ofgreiðslum hjá TR er oftast sú að bótaþegi hefur ekki með formlegum hætti (með útfyllingu eyðublaðs(a) þar um) látið vita um breytingar á aðstæðum sem eru forsenda greiðslna eða hafa áhrif á fjárhæð þeirra. Þetta geta verið tekjuupplýsingar, breytt hjúskaparstaða, flutningur barna milli foreldra og fleira sem þessu valda.

Ofgreiðsla sem nemur 20.000 krónum eða meiru er innheimt ef uppgjör er ekki kært. Lægri ofgreiðslur eru ekki innheimtar. Um frádrátt af bótum gilda ákveðnar reglur sem taka mið af fjárhæð skuldarinnar og heildarfjárhæð bóta. Heimilt er að draga allt að 20% af tekjutengdum bótum hvers mánaðar, að frátöldum elli- örorku- og endurhæfingarlífeyri.

Kærumál

Hægt er að kæra niðurstöðu uppgjörsins til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Eftir að kæra berst er áhrifum uppgjörs frestað og beðið niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar áður en hafist er handa við að innheimta meintar skuldir.

Heimasíða Tryggingastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert