Eignarhald auðlinda verði tryggt

Valgerður Sverrisdóttir, flytur ávarp formanns á landsfundi Framsóknarflokksins í dag
Valgerður Sverrisdóttir, flytur ávarp formanns á landsfundi Framsóknarflokksins í dag mbl.is/Golli

Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins, segir að ef þau markmið, að tryggja innlent eignarhald auðlinda okkar til lands og sjávar, náist ekki fram í aðildarviðræðum við Evrópusambandið sé engin þörf á að leggja aðildarsamning undir dóm þjóðarinnar.

„Svo sammála tel ég að þjóðin sé um þessar grundvallarforsendur ESB-aðildar," sagði Valgerður í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag. Rúmlega níu hundruð manns sitja flokksþingið, sem er það fjölmennasta í 92. ára sögu flokksins. Valgerður sagði í ræðu sinni, að kannski væri þetta flokksþing mikilvægasti tímapunktur fyrir Framsóknarflokkinn í áratugi en á þinginu verða bæði kjörnir nýr formaður og varaformaður flokksins.

Hún sagði að það væri eitt af stærstu verkefnum framsóknarmanna á flokksþinginu, að taka afstöðu til þeirrar spurningar hvort Íslendingar eigi að hefja aðildarviðræður við ESB og láta á það reyna í samningaferli hvort samningar náist, þar sem vel skilgreind samningsmarkið  nái fram að ganga. Slíkan samning yrði að sjálfsögðu að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hún sagði, að kjósi Ísland í framtíðinni að gerast aðili að Evrópusambandinu myndi slíkt skref hafa minni áhrif á daglegt líf Íslendinga en stökkið sem var tekið við aðildina að EES, jafnvel þótt hin lögformlega breyting yrði vafalaust meiri.

„Ég vænti þess að hér á flokksþinginu munum við koma okkur saman um þau markmið sem við þurfum að ná fram ef til þess kemur að gengið verði til aðildarviðæðna við Evrópusambandið. Þar á ég við þau markmið að tryggja innlent eignarhald auðlinda okkar til lands og sjávar. Við þurfum sömuleiðis að tryggja að landbúnaður okkar geti blómstrað til frambúðar og brauðfætt þjóðina og við þurfum að tryggja óskorað fullveldi með skýru ákvæði um að við getum sagt okkur úr sambandinu ef þurfa þykir. Náist þessi atriði ekki fram í aðildarviðræðum tel ég enga þörf á að leggja samning undir dóm þjóðarinnar," sagði Valgerður.

Hún gagnrýndi núverandi ríkisstjórn harðlega í ræðu sinni og sagði m.a. að verkefni framsóknarmanna væri m.a. að móta stefnu sem geti vísað þjóðinni veginn út úr þeim vanda sem við blasi „í kjölfar þess að alþjóðleg fjármálakreppa varð að íslensku efnahagshruni, ásamt aulaskap og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og taumlausri græðgi og fífldirfsku fjármálageirans."

Formaður og ritari Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir og Sæunn Stefánsdóttir, á …
Formaður og ritari Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir og Sæunn Stefánsdóttir, á landsfundi flokksins í dag. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert