Aukinn þorskafli veikir stöðu stofnsins

Hafrannsóknastofnun segir að prófanir, sem gerðar voru með tilliti til mismunandi forsendu um aflaaukningu, sýni að líkur aukist á að hrygningarstofn verði undir viðmiðunarmörkum árið 2012 ef afli fer fram úr aflareglu. Þar af leiðandi eru líkur einnig taldar aukast á áframhaldandi lélegri nýliðun.

Þetta kemur fram í greinargerð og ráðgjöf, sem stofnunin sendi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í október vegna umræðu um endurskoðun á þorskaflamarki og sérstakrar fyrirspurnar Landssambands íslenskra útvegsmanna um áhrif mismunandi forsendu um aflaaukningu á stöðu hrygningarstofns þorsks árið 2012. Greinargerðin byggði á stofnúttekt frá vorinu 2008. 

Fram kemur á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar, að gerð verði ný stofnúttekt á ástandi og horfum í þorskstofni á komandi vori, á grundvelli nýrra upplýsinga um afla fiskiskipa á árinu 2008 og úr nýlegum stofnmælingaleiðöngrum.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, ákvað í síðustu viku að breyta aflareglu, sem verið hefur í gildi síðustu ár, og auka áður ákveðinn þorskkvóta um 30 þúsund tonn í 160 þúsund tonn. 

Heimasíða Hafrannsóknastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert