Margt getur farið úrskeiðis

Eldar hafa logað við Austurvöll.
Eldar hafa logað við Austurvöll. mbl.is/Kristinn

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, hefur áhyggjur af því mótmælendur skuli vera að kveikja bálkesti við Austurvöll. „Það að kveikja eld er í raun og veru stórhættulegt athæfi,“ segir hann og bætir við að það geti margt farið úrskeiðis með skelfilegum afleiðingum.

„Vindátt eða annað getur breytt atburðarásinni þannig að þetta læsist í hús. Þarna er mikið af gömlum húsum sem geta brunnið ansi hratt. Þá eru mannslíf líka í húfi,“ segir hann og vísar í nýlega eldsvoða, t.d. á Klapparstíg þar sem hús gjöreyðilagðist á örfáum mínútum. 

„Þarna eru menn að leika sér að eldinum, og það máltæki segir allt sem segja þarf,“ segir Jón Viðar. Aðspurður segir hann bæði slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn í viðbragðsstöðu.

Um þúsund mótmælendur eru nú á Austurelli. Þá er lögreglan með fjölmennt lið á staðnum sem stendur vaktina. Tveir bálkestir loga nú við þinghúsið. Stólar og rúmdýnur eru á meðal þeirra hluta sem nú loga á bálinu.

Að sögn blaðamanns mbl.is, sem er á staðnum, er mikil spenna í loftinu. Lögreglan hefur hins vegar haldið stillingu og ekki hefur komið til neinna átaka. 

Svo virðist sem mótmælendurnir á Austurvelli skiptist nú nokkuð í tvo hópa. Annars vegar þá sem berja taktfast bumbur og hrópa slagorð og hins vegar minni hóp yngra fólks, sem kastar nú flöskum og kínverjum að lögreglunni þrátt fyrir tilmæli frá öðrum mótmælendum að láta af slíku. 

Frá Austuvelli.
Frá Austuvelli. mbl.is/Kristinn
Kveikt hefur verið í tveimur bálköstum.
Kveikt hefur verið í tveimur bálköstum. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert