Fréttamenn hafa ekki sagt upp

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvar 2.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvar 2.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvar 2, hefur staðfest í samtali við mbl.is að stjórnendum Kompás, þeim Jóhannesi Kr. Kristjánssyni, Kristni Hrafnssyni og Inga R. Ingasyni, hafi verið sagt upp störfum og þátturinn lagður niður. Hann kannast hins vegar ekki við það að aðrir fréttamenn stöðvarinnar hafi sagt upp í dag til að sýna Sigmundi Erni Rúnarssyni samstöðu.

Þá var búið að segja Brynju Dögg Friðriksdóttur upp störfum, en hún hefur einnig starfað að gerð þáttarins.

Óskar Hrafn og Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, funduðu með fréttamönnum stöðvarinnar í dag til að fara yfir stöðu mála og „hreinsa andrúmsloftið“ líkt og einn fréttamaður stöðvarinnar sagði í samtali við mbl.is

Fyrr í dag var Sigmundi Erni og Elínu Sveinsdóttur útsendingarstjóra sagt upp, en þau hafa starfað á Stöð 2 frá upphafi, eða frá 1986. Í framhaldinu bárust fréttir af því að aðrir fréttamenn Stöðvar 2 hafi afhent uppsagnarbréf til að sýna samstöðu með þeim. Óskar Hrafn segist ekki kannast við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert