ÞG Verk nýtir sér gengismuninn

Finnbjörn A. Hermannsson
Finnbjörn A. Hermannsson

„Við ætlum að hafa samband við þá félagsmenn okkar sem hugsanlega eru að fara í þessi verkefni og fara yfir málið með þeim,“ sagði Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar og Fagfélagsins, um meintar undirgreiðslur íslenskra verktaka á færeyskum vinnumarkaði.

Finnbjörn sagði að færeysk stéttarfélög eða samtök þeirra hafi ekki haft samband við Samiðn eða Fagfélagið vegna hinna meintra undirboða Íslendinganna í Færeyjum.

Hann kvaðst hafa heyrt að t.d. verktakafyrirtækið Ístak greiddi íslenskum starfsmönnum sínu í Færeyjum samkvæmt þarlendum taxta og í færeyskum krónum. Hann kvaðst einnig vita að ÞG Verk hafi nýtt sér gengismuninn á íslensku og færeysku krónunni og greitt íslenskum starfsmönnum í Færeyjum íslensk laun. Hann sagði að meðan gengi krónunnar sé lágt sé munurinn á færeyskum og íslenskum launum töluverður.

„Það er okkur ekkert til framdráttar að fara svona inn á vinnumarkað annarra,“ sagði Finnbjörn. „Við ætlum að útskýra fyrir okkar mönnum hvað þeir eru að gera. Þetta er alveg það  sama og Pólverjarnir gerðu þegar þeir voru að koma hingað fyrst. Þá áttu þeir að vinna á pólskum launum. Það var eðlilegt fyrir þá en það var ekki eðlilegt fyrir okkur sem bjuggum hér. Það gildir sama um Færeyinga. Það er ekki eðlilegt að það séu að koma þangað menn sem taka miklu lægri laun en gilda í Færeyjum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert