Vill ekki að Írlandi sé líkt við Ísland

Bryan Cowen.
Bryan Cowen. Reuters

Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, tók það óstinnt upp þegar José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, bar saman Ísland og Írland á fundi heimsviðskiptastofnunarinnar í Davos í Sviss í vikunni.

„Það er athyglisvert að bera saman Írland og Ísland," sagði Barroso. „Þetta eru tvö lítil hagkerfi en munurinn var meðal annars, að Írland er á evrusvæðinu og notar því viðurkenndan gjaldmiðil.

Raunar hefur Ísland kannað óformlega möguleikann á að taka upp evru. Við höfum sagt stjórnvöldum á Íslandi að það sé ekki hægt að ganga í myntbandalagið nema sem aðili að Evrópusambandinu," sagði Barroso.

Cowen brást illa við þessum orðum, og sagðist ekki líða að talað væri illa um Írland. Þá væri samanburður Barroso ekki réttur í ljósi þess, að Írland hefði notið efnahagsuppgangs undanfarin 12-13 ár.

Í vikunni kom fram hjá Cowen á írska þinginu, að útlitið í írskum efnahagsmálum er afar dökkt, útlit er fyrir 10% samdrátt þjóðartekna til ársins 2010, stórauknu atvinnuleysi og fjárlagahalla. Sagði Cowen að alþjóðlegu fjármálakreppunni væri um að kenna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert