Birni þótti lítið leggjast fyrir Jóhönnu

mbl.is/Ómar

„Jóhanna Sigurðardóttir fór ekki vel af stað á blaðamannafundi um nýja verkáætlun stjórnar sinnar í dag, þegar hún sakaði mig um að vera svifaseinn sem ráðherra og vísaði þar til frumvarps um skuldaaðlögun,“ skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra á vefsíðu sína.

Björn segir frumvarpið einfaldlega liggja óafgreitt í þingflokki Samfylkingar við stjórnarskipti í þeim búningi, sem það var flutt af Birni að fenginni tillögu réttarfarsnefndar, eftir afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og þingflokks sjálfstæðismanna.

Björn segir frumvarpið hafa tafist fyrir áramót vegna yfirferðar í ráðuneyti Jóhönnu, sem síðan sagðist vera sama sinnis og viðskiptaráðuneytið, en það fékk málið einnig til skoðunar.

„Líklega lítur Jóhanna nú á það sem tímasóun, að það skuli hafa verið leitað álits í ráðuneyti hennar. Margt er unnt að skamma mig fyrir sem ráðherra, en ég held, að fáir, sem þekkja mín vinnubrögð, taki undir þá skoðun Jóhönnu, að ég hafi verið svifaseinn. Ég hlustaði á þessa röngu frásögn verðandi forsætisráðherra, þegar ég ók á minn síðasta ríkisráðsfund á Bessastöðum. Þótti mér lítið leggjast fyrir Jóhönnu með þessum orðum hennar og ekki gefa mér góða mynd af væntanlegum starfsháttum,“ skrifar Björn Bjarnason.

Vefur Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert