Norðurlöndin gæti loftrýmis Íslands

Rússnesk Tu-160 sprengjuflugvél á flugi yfir Múrmansk.
Rússnesk Tu-160 sprengjuflugvél á flugi yfir Múrmansk. AP

Ný skýrsla um utanríkismál og öryggismál Norðurlanda verður birt á óformlegum fundi utanríkisráðherra landanna í Ósló á mánudag. Finnska blaðið Helsingin Sanomat segir, að í skýrslunni sé hvatt til að Norðurlöndin auki samvinnu sína í varnarmálum og taki m.a. öll þátt í að hafa eftirlit með loftrými Íslands.

Blaðið segir, að Thorvald Stoltenberg, fyrrum utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Noregs, muni á fundinum leggja fram tillögur um nánari samvinnu Norðurlandanna í varnarmálum. 

Tillögurnar fjalli um allt frá sameiginlegum sendiráðum Norðurlandanna til varanlegrar samvinnu um ýmis öryggismál. Þær tillögur sem gangi lengst séu um varnarsamvinnu.

Blaðið segir að Stoltenberg hafi ekki viljað tjá sig um tillögurnar áður en þær verða gerðar opinberar og embættismenn voru einnig tregir til að veita um þær upplýsingar. En segja þó að þar sé lögð áhersla á mikilvægi Íslands vegna þess að sameiginleg loftrýmisgæsla þar veki upp erfiðar spurningar, sem hafi verið sniðgengnar að mestu til þessa.

Sú helsta sé hvenær samvinna um loftrýmiseftirlit með svæði verði að sameiginlegum landvörnum, þ.e. skuldbindinga landa um að verja hvert annað. Noregur, Danmörk og Ísland eru aðilar að NATO og því undir slíkum skuldbindingum en Svíþjóð og Finnland ekki.

Á síðasta ári lýsti Svíþjóð því yfir, að landið myndi ekki sitja aðgerðarlaust ef ráðist yrði á önnur Norðurlönd. Finnland hefur ekki tekið jafn afdráttarlausa afstöðu. 

Helsingin Sanomat segir, að mikilvægi loftrýmisgæslunnar á Íslandi hafi aukist eftir að bandaríska varnarliðið fór frá Keflavík árið 2006. Önnur NATO-ríki hafa séð um loftrýmisgæsluna tímabundið síðan en á sama tíma hafa rússneskar sprengjuflugvélar tekið upp á því að fljúga nálægt Íslandi. Einnig sé áhugi á norðurslóðum almennt að aukast.

Frétt Helsingin Sanomat

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert