Hárétt ákvörðun

Sturla Böðvarsson þingmaður.
Sturla Böðvarsson þingmaður. mbl.is

Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það hárrétta ákvörðun hjá fráfarandi sjávarútvegsráðherra að leyfa hvalveiðar. Vísaði hann því á bug að Einar Kr. Guðfinnsson hefði ekki haft stjórnsýslulegt umboð til þess. Benti hann á að ef svo væri þá myndi sú stjórn sem nýverið hefði tekið við og líka væri starfsstjórn heldur ekki hafa stjórnsýslulegt umboð til þess að afturkalla ákvörðunina. Þetta kom fram á opnum fundi um hvalveiðar sem nú fer fram á Akranesi.

Sturla minnti á skýrslu sem hann lét vinna þegar hann var ráðherra ferðamála árið 2004 sem leiddi í ljós að hvalveiðar í vísindaskyni árið 2003 hefði ekki haft nein neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna.

Sturla sagðist hafa miklu mun meiri áhyggjur af því að sú ákvörðun að draga úr landkynningu erlendis myndi hafa mun neikvæðari áhrif á ferðaþjónustuna heldur en sjálfar hvalveiðarnar.

Alltaf stutt hvalveiðar

„Ég hef alltaf stutt hvalveiðar,“ sagði Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar. Sagðist hann aldrei hafa séð rök fyrir því að nýta ekki hvalinn eins og aðrar auðlindir. Guðbjartur gagnrýndi fráfarandi sjávarútvegsráðherra fyrir það hvernig hann stóð að ákvörðuninni. „Málið er í hættu af því að ákvörðunin var tekin alltof seint, auk þess sem magnið var of mikið,“ sagði Guðbjartur og minnti á að Samfylkingin hefði ekki lagst gegn veiðum, þó vissulega væri málið umdeilt innan flokksins.

Hrefnan arðræningi

Guðjón Arnar Kristjánsson,formaður Frjálslynda flokksins, sagðist vona að sú ríkisstjórn sem nú væri tekin við beri gæfu til þess að láta ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra standa.

„Ef það væri einhver sérstök rök fyrir því að breyta þessari ákvörðun gæti maður kannski skilið það að menn væri í vafa. En ég fæ bara ekki skilið af hverju Steingrímur er í vafa. Það er fullkomlega eðlilegt að taka hér upp hvalveiðar,“ sagði Guðjón og minnti á að veiðarnar væru algjörlega sjálfbærar.

Benti hann á að menn væru nú að átta sig á því í ljósi nýrra rannsókna að hrefnan væri miklu meiri arðræningi í sjónum á þorsk og ýsu heldur en menn hefðu áður gert sér grein fyrir.

Ákvörðunin var tekin

Herdís Þórðardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist fagna ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. „Það skiptir engu máli hvenær sú ákvörðun var tekin. Hún var tekin,“ sagði Herdís og uppskar lófatak fundargesta.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert