Ólafur segir mótmælenda hafa skemmt bifreið sína

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Ólafur Klemensson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, segir að einn úr hópi mótmælenda fyrir utan Seðlabankann í morgun hafi lamið bifreið sína að utan og það sjáist á bifreiðinni. Hermann Valsson, mótmælandi, segir í samtali við DV að Ólafur hafi ekið á sig fyrir utan bankann í morgun. Ólafur segir að þetta sé ekki rétt hjá Hermanni.

Ólafur sagði í samtali við mbl.is að Hermann hafi slegið tvisvar í bifreiðina að aftan og hliðarrúðu einnig. Það sjái á bílnum og hann beyglaður að aftan. Ólafur segist ekki hafa vitað hver maðurinn var en hann hafi neitað að gefa upp nafn við lögreglu þegar Ólafur leitaði til lögreglu vegna málsins. 

„Þegar ég fer til lögreglunnar og bendi henni á þetta og bið hana að taka niður nafn á þessum manni þá kemur hann að og segir Ólafur Klemensson keyrði á mig. Þá þekkti hann mig með nafni sem segir kannski heilmikla sögu og neitaði að segja sjálfur til nafns þegar lögreglan spurði hann," segir Ólafur.

Ólafur segist ekki vita hvort hann muni kæra þetta en hann muni að sjálfsögðu leita til síns tryggingafélag og láta það um að meta tjónið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert