Launafólkið greiði atkvæði um frestun hækkana

Samingar ASÍ og SA voru undirritaðir í húsakynnum ríkissáttasemjara 17. …
Samingar ASÍ og SA voru undirritaðir í húsakynnum ríkissáttasemjara 17. febrúar 2008. Formenn aðildarfélaga ASÍ takast í dag á um hvort fresta eigi launahækkunum sem koma eiga til framkvæmda 1. mars nk. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég sé ekki hvernig verkalýðsforingjar ætla að taka um það ákvörðun að fresta endurskoðun og hækkun á launalið samninganna. Launafólkið í landinu greiddi atkvæði um samningana á sínum tíma og það væri þá eðlilegt að ákvörðun sem þessi yrði tekin af launafólkinu sjálfu, það færi fram allsherjaratkvæðagreiðsla,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags.

Formenn aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands hafa verið boðaðir til fundar í dag til að ræða hugmynd miðstjórnar og forseta ASÍ um að fresta endurskoðun kjarasamninga og þeim launahækkunum til félagsmanna á hinum almenna vinnumarkaði sem eiga að koma til 1. mars nk.

Félagsmenn í ASÍ eru ríflega 108.000 í 5 landssamböndum og 64 aðildarfélögum um land allt. Þar af eru ríflega 98.000 virkir á vinnumarkaði.

Mjög skiptar skoðanir eru um þessa hugmynd og hafa fjölmörg félög krafist þess að staðið verði við gerða samninga og hafnað því að fresta endurskoðun og hækkun á launalið samninganna. Önnur félög hafa talið skynsamlegt að fresta opnunarákvæðum kjarasamninga fram yfir ríkisstjórnarmyndun að afloknum kosningum til Alþingis í vor.

Samkvæmt gildandi samningum eiga laun að hækka um 3,5% frá og með 1. mars hjá þeim sem ekki hafa notið launaskriðs eða sérstakra hækkana síðustu 12 mánuði. Lægstu laun eiga að hækka sérstaklega, taxtar verkafólks um 13.500 krónur og taxtar iðnaðarmanna um 17.500 krónur.

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags, er einn þeirra sem leggst gegn því að endurskoðun kjarasamninga og umsömdum kauphækkunum verði frestað. Aðalsteinn segir ákveðna skekkju komna í launauppbyggingu eftir að hækkun atvinnuleysisbóta var flýtt og skekkjuna verði að leiðrétta.

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ákvað fyrir jól, í samráði við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, að flýta hækkun atvinnuleysisbóta. Þann 1. mars næstkomandi var gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur ættu að hækka um 13.500 krónur til samræmis við lægstu laun á almennum vinnumarkaði. Þess í stað var ákveðið að hækkunin kæmi til framkvæmda 1. janúar 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert