Brottkast þorsks jókst árið 2007

Brottkast þorsks var 2.419 tonn árið 2007 eða 1,51% af lönduðum afla, og er það næst hæsta gildi frá því mælingar hófust árið 2001, samkvæmt skýrslu Fiskistofu. Brottkast ýsu var 2.167 tonn eða 2,04% af lönduðum afla, sem er lægsta hlutfall brottkasts ýsu frá því mælingar hófust.

Fiskistofa hefur ásamt Ólafi Karvel Pálssyni fiskifræðingi á Hafrannsóknastofnuninni í átta ár mælt og tekið saman upplýsingar um stærðardreifingu helstu botnfisktegunda í lönduðum afla og í veiddum afla. Tilgangur mælinganna er að kanna stærðartengt brottkast við veiðar þessara tegunda.

Mælingar á brottkasti beindust einkum að þorsk- og ýsuveiðum í helstu veiðarfæri, en einnig að ufsa og gullkarfa í botnvörpuveiðum. Mælingar á öðrum tegundum voru ekki nægilega umfangsmiklar til að meta brottkast með viðunandi hætti.

Brottkast ufsa og gullkarfa var ekki mælanlegt.

Brottkast þorsks var 2.419 tonn árið 2007 eða 1,51% af lönduðum afla, og er það næst hæsta gildi tímabilsins 2001-2007. Árlegt meðalbrottkast þorsks tímabilið 2001-2007 var 2.224 tonn eða 1,17% af lönduðum afla.

Brottkast ýsu var 2.167 tonn eða 2,04% af lönduðum afla, og er það lægsta hlutfall brottkasts ýsu á árunum 2001-2007.

Samanlagt brottkast þorsks og ýsu var 4.586 tonn árið 2007, en að jafnaði 4.898 tonn 2001-2007, eða 1,83% af lönduðum afla þessara tegunda.

Í fiskum talið var brottkast þorsks 2001-2007 um 1,9 milljónir fiska að jafnaði eða 2,98% af meðalfjölda landaðra fiska, en brottkast ýsu var um 4,3 milljónir fiska eða 8,50%. Samanlagt brottkast þessara tegunda var því um 6,2 milljónir fiska á ári að jafnaði 2001-2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert