Útrásarvíkingana á válista

„Það á að setja 40 til 50 manna hóp á válista og við þennan hóp eiga bankarnir ekki að skipta,“ sagði Atli Gíslason, þingmaður VG í Silfri Egils um útrásarvíkingana svokölluðu. Atli sagði að ef þeir ekki skiluðu aftur til þjóðarbúsins því sem þeir hefðu tekið, væru þeir dæmdir til útlegðar eins og hverjir aðrir þjóðníðingar.

Atli tók dæmi um óeðlilega gjörninga fjármálafyrirtækja, skömmu fyrir bankahrunið. Hann tiltók óeðlilegar lánveitingar til valinna viðskiptavina gömlu bankanna, arðgreiðslur til hluthafa og 70 milljarða króna útstreymi úr peningamarkaðssjóðum gamla Landsbankans, fjóra til fimm síðustu dagana áður en þeim var lokað. Atli sagði ljóst að upplýsingar hefðu lekið úr bankanum og ekki hefðu allir viðskiptavinir sjóðanna setið við sama borð.

Fjórða atriðið sem Atli nefndi snýr að fjármagnsflutningum frá Bretlandi. Atli sagði þá líklega meginástæðu þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi. Ef rétt reyndist, þá hefðu þeir sem að fjármagnsflutningunum stóðu, gerst sekir um landráð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert