Kosning hefst á laugardaginn

Þar sem ákveðið hefur verið að alþingiskosningar fari fram þann 25. apríl næstkomandi má hefja utankjörfundarkosningu 28. febrúar eða næstkomandi laugardag. Byrja má átta vikum fyrir kjördag en ekki er víst að byrjað verði fyrr en eftir helgi.

Sýslumönnum hefur þegar verið sent bréf um helstu dagsetningar í kosningaferlinu og munu þeir auglýsa hver hjá sér. Þegar nær dregur kosningum verður Laugardalshöllin í Reykjavík notuð fyrir utankjörfundarkosningu.

Þegar hefur einum listabókstaf, A, verið úthlutað vegna nýs framboðs, það er framboðs Framfaraflokksins. Eitt eða tvö önnur framboð munu vera í pípunum og sækja þarf um listabókstafi fyrir þau. Beiðni um nýjan listabókstaf stjórnmálasamtaka þarf að hafa borist á hádegi 7. apríl.

Þar með er ljóst að þeir sem greiða atkvæði utankjörstaðar fyrir þann tíma vita mögulega ekki hvað í boði er. „Mér þykir það ekki góð latína,“ segir Hjalti Zóphóníasson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.

Framboð skal tilkynna yfirkjörstjórn eigi síðar en á hádegi 15 dögum fyrir kjördag eða þann 10. apríl.

Landskjörstjórn, Þjóðskrá og Reykjavíkurborg hafa þegar hafið undirbúning að ákvörðun um hvar mörk norður- og suðurkjördæmis í Reykjavík verða í alþingiskosningunum 25. apríl næstkomandi. Gæta á þess að fjöldi kjósenda í kjördæmunum verði sem jafnastur.

Stefnt er að því að Íslendingar búsettir erlendis geti kosið þótt þeir hafi ekki getað tryggt fyrir tilskilinn tíma, það er 1. desember, að þeir yrðu á kjörskrá. Samkvæmt frumvarpi á að duga að þeir geri það fyrir 1. apríl. ingibjorg@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert