Ráðamenn í skýrslutökur

Nefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, …
Nefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, og Sigríður Benediktsdóttir. mbl.is/Ómar

Senn líður að því að bankastjórar, ráðherrar og aðrir þeir sem aðild áttu að atburðum sem leiddu til falls bankanna í október í fyrra verði kallaðir til skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Þetta staðfesti Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is í dag. Með honum í nefndinni er Tryggvi Gunnarsson hrl., og umboðsmaður Alþingis, og Sigríður Benediktsdóttir hagfræðingur við Yale háskóla.

„Ég reikna með því að mögulegt verði að kalla í skýrslutöku aðila sem við teljum vert að ræða við, þar á meðal bankastjóra, ráðherra og stjórnmálamenn, um miðjan næsta mánuð ef allt gengur að óskum,“ sagði Páll í samtali við mbl.is.

Páll segir nefndina hafa verið önnum kafna við vinnu frá því hún tók til starfa um áramót. Mikil vinna hafi farið fram við að afla gagna og draga upp mynd af atburðum sem væru til rannsóknar. Sérfræðingar hafi aðstoðað nefndina við fjölmarga þætti.

Meginhlutverk nefndarinnar er að safna upplýsingum um staðreyndir sem við koma bankahruninu, draga upp heildarmynd af aðdraganda að falli bankanna og svara því hverjar hafi verið orsakir þess. Þá er nefndinni einnig ætlað að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd einstakra laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Páll segir nefndina meðal annars vera að skoða áhrif kerfislægra breytinga á íslenskt efnahagslíf, þar á meðal einkavæðingu bankanna. „Það að mörgu að hyggja og ljóst að marga þætti þarf að skoða til að heildarmyndin verði rétt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert