Ráðist gegn vanda heimilislausra

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og …
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra.

Tuttugu heimilislausum í Reykjavík hefur verið tryggt húsnæði, þjónusta og  félagslegur stuðningur samkvæmt samningi félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið leggur til 28,5 milljónir króna á hverju ári næstu þrjú árin, samtals 85,6 milljónir, til verkefnisins samkvæmt samningi sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félags- og tryggingamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri í Reykjavík hafa undirritað.

Samningurinn tryggir þeim sem glímt hafa við áfengis- og vímuefnaneyslu, eru hættir neyslu en eiga við margháttaða félagslega erfiðleika að stríða, aðstoð við að aðlagast samfélaginu á ný. Þjónustan felur í sér húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu þannig að íbúar geti í framhaldinu búið sjálfstætt og tekið virkan þátt í samfélaginu án vímugjafa. SÁÁ útvegar húsnæði, annast rekstur þess og veitir umræddum hópi þá þjónustu sem hér um ræðir.

Við undirritun samningsins sagðist Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra fagna því að hann væri nú í höfn.

„Samningurinn markar tímamót þar sem lengi hefur verið brýn þörf fyrir aðstoð af þessu tagi, við fólk sem á að baki margar áfengis- og vímuefnameðferðir en er ekki fært um að búa á eigin vegum,“ sagði Ásta Ragnheiður.  

Vegna samningsins hefur þegar verið gengið frá samstarfi SÁÁ og Reykjavíkurborgar til þriggja ára um húsaskjól og félagslegan stuðning fyrir þennan hóp. Nú þegar njóta 10 manns þjónustunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka