Mörður: Ég átti að fylgjast betur með

Mörður Árnason.
Mörður Árnason.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, þakkaði Ástu Möller, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag fyrir að hafa í gær beðist afsökunar á því að hafa ekki staðið sig betur sem kjörinn fulltrúi almennings þegar bankakerfið stækkaði ört og að lokum hrundi. Sagðist Mörður sjálfur ekki hafa verið nógu gagnrýninn í sínum flokki og hefði átt að fylgjast með utanríkisráðherra og félögum hennar.

Ásta spurði Mörð á móti hvar ábyrgð Samfylkingarinnar væri á bankahruninu.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði margoft komið í ræðum og ritum að Sjálfstæðisflokkurinn axlar sína ábyrgð á því sem gerðist. Mikil umskipti væru að verða í forustu Sjálfstæðisflokksins en það sama væri ekki að segja um forustu Samfylkingarinnar.

Pétur Blöndal sagðist ekki skorast undan sinni ábyrgð. Hann og fleiri þingmenn hefðu t.d. átt að sjá hættuna sem skapaðist af Icesave-reikningunum þótt Evrópusambandið hafi ekki séð hana.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að stærstu mistök flokksins hefðu verið að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem sló á frest umræðu um aðild að Evrópusambandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert