Eftirlaunin til þriðju umræðu

Frumvarp um afnám eftirlaunalaganna er nú komið til þriðju umræðu.
Frumvarp um afnám eftirlaunalaganna er nú komið til þriðju umræðu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eftirlaunafrumvarpið nálgast nú gildistöku sína, enda var greitt um það atkvæði á Alþingi eftir hádegið í dag og það sent til þriðju og síðustu umræðu. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri-grænna sagði að með frumvarpinu verði útrýmt þeim sérkjörum sem þingmenn búi við í lífeyrisréttindum og að með því náist langþráð sátt í samfélaginu.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði frumvarpið fela í sér jákvæðar breytingar og auka gegnsæi. Hins vegar njóti Alþingismenn ennþá sérkjara eftir samþykkt frumvarpsins, fram yfir meirihluta kjósenda sem séu í almennum lífeyrissjóðum, en ekki A-deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Sagði hann nær að leyfa þingmönnum að velja sér lífeyrissjóð og deila kjörum með um 80% umbjóðenda sinna, þ.e. þeirra sem ekki starfa hjá hinu opinbera.

Árni Þór svaraði því til að með því yrði þingmönnum veitt sú forréttindastaða að vera eina starfsstéttin sem geti valið sér lífeyrissjóð. Það geti engir aðrir. Pétur H. Blöndal hafnaði þessu hins vegar alfarið og sagði að það væri nákvæmlega það sem þingmenn væru að gera með frumvarpinu eins og það er núna, að velja sér lífeyrissjóð og að velja þann sem gæfi bestu og öruggustu réttindin.

Greinar frumvarpsins voru allar samþykktar samhljóða, nema fjórða greinin sem fjallar um að forseti, ráðherrar og alþingismenn skuli vera í A-deild LSR. Þar féllu atkvæði þannig að 35 sögðu já, tveir sátu hjá en einn, Pétur H. Blöndal, sagði nei. Breytingartillaga Péturs við greinina var hins vegar felld með 25 atkvæðum gegn 12, en þrír sátu hjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert