Góð kjörsókn í prófkjörum

Kjörkassar eru ekki allta nauðsynlegir nú til dags, þar sem …
Kjörkassar eru ekki allta nauðsynlegir nú til dags, þar sem kosningar fara stundum fram á netinu með rafvæddum hætti. Myndin tengis efni fréttarinnar ekki beint. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Prófkjör eru nú í gangi víða um land, hjá Samfylkingunni sem heldur prófkjör í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi og hjá Framsóknarflokknum í Suðvesturkjördæmi.

Góð kjörsókn er í prófkjöri Framsóknar, að sögn Hildar Helgu Gísladóttir, formanns kjördæmissambandsins þar, en um klukkan þrjú í dag var orðin tæplega 30% kjörsókn. Kosningu lýkur klukkan 18.00 í kvöld.

Hjá Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi höfðu um það bil 1.800 manns kosið klukkan hálfþrjú í dag, að sögn Láru Stefánsdóttur, formanns kjörstjórnar. Það verður að teljast góð kjörsókn, enda er það álíka fjöldi og kaus í síðasta prófkjöri flokksins í því kjördæmi. Kosningu lýkur þó ekki fyrr en klukkan 17.00 svo búast má við verulega aukinni kjörsókn frá því síðast. Prófkjörið er opið en þó þurfa þátttakendur að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við flokkinn til að mega greiða atkvæði.

Í Suðurkjördæmi höfðu hafa um 1.850 manns kosið í netprófkjöri Samfylkingarinnar, sem lýkur í dag klukkan 18.00. Kosning stendur þar yfir bæði á netinu og á kjörstöðum sem er að finna í kaupstöðum kjördæmisins, að sögn Eysteins Eyjólfssonar sem stjórnar prófkjörinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert