Mjög slæmt veður á Akureyri

Víkurskarð er ófært
Víkurskarð er ófært mbl.is/Kristján Kristjánsson

Lögreglan á Akureyri varar við því að veður á Akureyri og nágrenni er nú slæmt og skyggni lítið sem ekkert á köflum.  Innanbæjar á Akureyri er mjög blint og þæfingsfærð um margar götur og biður lögregla vegfarendur að vega og meta þörfina á því að fara á bílum sínum af stað og þá einnig hvort að bílar þeirra séu nægjanlega vel útbúnir en talsvert hefur verið um það í morgun að ökumenn á fólksbílum á hafi lent í vandræðum og setið fastir, sumir ofar en einu sinni.

Lögreglan bendir á að ófært er til Grenivíkur frá Akureyri og þá er Víkurskarð ófært en aðilar úr Björgunarsveitinni Tý á Svalbarðströnd og Þingey í Þingeyjarsveit hafa staðið í ströngu frá því kl. 05:00 í morgun við að koma vegfarendum þar til aðstoðar sem lentu þar í vandræðum.  Þeim verkefnum er nú lokið.


Ákveðið hefur verið að fella niður áætlunarferð milli Akureyrar og Egilsstaða í dag vegna veðurs og og ófærðar. Einnig var felld niður morgunferð milli Akureyrar og Húsavíkur, en stefnt á að halda áætlun þangað seinni partinn.

Á Suðurlandi er víða hálka eða hálkublettir þó aðallega í uppsveitum.

Á Vesturlandi eru víðast hálka, hálkublettir og skafrenningur. Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði. Ófært er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er víða hálka, hálkublettir og skafrenningur.

Á Norðurlandi er víða hálka, hálkublettir, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur. Ófært og stórhríð er í Víkurskarði og að Grenivík.

Á Norðausturlandi er víða þæfingsfærð. Þæfingsfærð er á Tjörnesi og ófært er um Hólasand. Óveður og þungfært er á milli Húsavíkur og Lauga og á milli Vopnafjarðar og Þórshafnar, ófært er um Melrakkasléttu og þungfært er um Hálsa. Ófært er um Vopnafjarðarheiði og Mývatnsöræfi og þungfært er um Möðrudalsöræfi. Ekkert ferða veður er í þessum landshluta.

Á Austurlandi er hálka,snjóþekja og skafrenningur. Ófært er um Fjarðarheiði og Vatnsskarð eystra og beðið er með mokstur þar. Þæfingsfærð er á Fagradal og í Oddskarði. Ófært er um Breiðdalsheiði. Óveður er í nágreni Djúpavogs.

Á Suðausturlandi eru víða hálkublettir og skafrenningur, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert