Óvæntur sauðburður á Ströndum

Heimasætan Júlíana og ærin Gyðja með lambhrútinn
Heimasætan Júlíana og ærin Gyðja með lambhrútinn Edda Hafsteinsdóttir

Guðlaugur Ágústsson bóndi á Steinstúni fékk óvæntar móttökur þegar hann fór í fjárhúsin í morgun til að gefa morgungjöfina, því ærin Gyðja var þá borin einum hvítum lambhrút. Gyðja er óvenju snemma í tíðinni því allajafna hefst sauðburður ekki fyrr en með vorinu í apríl og maí.

Fram kemur á fréttavefnum Litlahjalla að ærin hafi komist í hrút áður en fé var tekið á hús í haust, sennilega um svipað leyti og íslensku bankarnir hrundu hver af öðrum. Heimasætan Júlíana Lind Guðlaugsdóttir var fljót til og er nú búin að gefa lambinu nafnið Bylur, enda hefur geysað mikið óveður norðanlands með þungri ofankomu síðan hrúturinn litli kom í heiminn. Ærin og Bylur eru bæði mjög spræk enda hafa þau það gott inni í hlýjum húsum á Steinstúni þrátt fyrir bylinn sem lemur þau að utan.

Bylur er reyndar ekki fyrsta lambið sem lítur dagsins ljós á Íslandi þetta árið, því á föstudaginn síðasta fæddist einnig lambhrútur á bænum Reykjaborg í Skagafirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert