Endurfjármögnun bankanna lokið í lok næsta mánaðar

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði við utandagskrárumræður á Alþingi um efnahagsástandið í dag, að gert væri ráð fyrr að takast muni að endurfjármagna bankana í lok næsta mánaðar. Þá sagði hún að aðstæður væru að skapast fyrir lækkun vaxta.

Jóhanna sagði, að hún gerði ráð fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða vaxtalækkun á næsta vaxtaákvörðunardegi sem er 19. mars. Allar forsendur séu fyrir lækkun.

Jóhanna sagði einnig, að starfshópur á vegum Seðlabankans, sem metið hefur áhrif fjármálakreppunnar á efnahag heimila og fyrirtækja muni væntanlega skila niðurstöðu í þessari viku. Þá mun liggja fyrir í fyrsta sinn heildaryfirlit þar sem skuldir og eignir á Íslandi hafa verið kortlagðar. ,,Þær upplýsingar munu leggja grunn að frekari aðgerðum,“sagði Jóhanna.

„Gert er ráð fyrir að samningum ljúki um miðjan maí um greiðslur til gömlu bankanna. Í kjölfar þess verði gengið til endurskipulagningar fjármálakerfisins í ljósi þarfa íslensks atvinnulífs,“ sagði hún. Jóhanna sagði að viðræður vegna Icesave væru nú komnar í formlegan farveg og þær hæfust í Reykjavík í lok þessa mánaðar. Þá kom fram í máli Jóhönnu að aðstæður gerðu enn ekki mögulegt að losa um gjaldeyrishöftin. Áður en hægt verði að losa um þau verði að draga verulega úr óvissunni og skýrari upplýsingar að liggja fyrr um skuldastöðu þjóðarbúsins.

Fram kom í máli Jóhönnu að um 22 þúsund manns hafa þegar nýtt sér greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána og þúsundir til viðbótar frystingu myntkörfulána.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert