Fólkinu fullkunnugt um áhættuna

Fyrrum framkvæmdastjóri Landsbankans í Lúxemborg, Gunnar Thoroddsen, segir viðskiptavini bankans sem tóku eignalán hafa verið meðvitaða um áhættuna sem þeim fylgdi.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að ellilífeyrisþeginn Jack Hemus og Barlow-hjónin óttist nú að missa heimili sín eftir að skilanefnd Landsbankans í Lúxemborg krafðist þess að þau gerðu upp lánin við bankann. Hús þeirra er að veði. Hemus býr á sólarströndum Spánar en Barlow-hjónin á frönsku rivíerunni. Þau hafa leitað til lögfræðings og segjast hafa lent í svikamyllu.

Um sex hundruð tóku lánin á Spáni, en Hemus er í hópi sextíu fjölskyldna sem leituðu ásjár lögfræðinga. Samkvæmt heimildarmanni Morgunblaðsins eru lántakendur ekki færri í Frakklandi.

Yfirlýsing Gunnars er svohljóðandi:

„Sem dótturfélag Landsbanka Íslands annaðist Landsbankinn í Lúxemborg S.A. sérhæfða þjónustu á sviði eignastýringar fyrir efnaða einstaklinga á Norðurlöndum og víðar um Evrópu. Ein af mörgum vörum bankans var boðin undir nafninu „equity release“ og fólst í að aðstoða efnaða einstaklinga við að losa um eigið fé sem bundið var í verðmiklum fasteignum við suðurstrendur Spánar og Frakklands. Aðferðin byggði á því að lán var veitt með veði í fasteigninni sem svo var nýtt til þess að fjárfesta í hluta- og skuldabréfasjóðum og öðrum verðbréfum.

Kaupendur vörunnar nutu þess annars vegar að hluta lánsins fengu þeir til ráðstöfunar (ca 25%) en freistuðu þess að ná hærri ávöxtun á hinn hluta lánsins en sem nam vaxtagreiðslum og verðmætaaukningu fasteignarinnar. Vara þessi var boðin í samkeppni við fjölmargar alþjóðlegar bankastofnanir, s.s. Barclays, Danske Bank, Rothschild, Jyske Bank, Nykredit o.fl., og í fullu samræmi við lög og skilmála eftirlitsaðila. Vara Landsbankans í Lúxemborg var í öllum meginatriðum sambærileg við vörur annarra banka sem störfuðu á sama markaði. Varan var einungis seld sterkefnuðum einstaklingum sem var fullkunnugt um þá áhættu sem felst í því að veðsetja fasteignir sínar til fjárfestinga á markaði.

Í öllum tilvikum voru fjárfestingar gerðar í samræmi við óskir viðskiptavina og yfirleitt í dreifðum söfnum alþjóðlegra hluta- og skuldabréfa. Fyrir kom að viðskiptavinir óskuðu þess sérstaklega að keypt yrðu skuldabréf í íslenskum bönkum sem hluta af safni annarra verðbréfa enda þótti mörgum það vera góður fjárfestingakostur. Bréfin voru keypt á eftirmarkaði og höfðu íslenskir bankar eða starfsmenn þeirra enga beina hagsmuni af slíkum viðskiptum. Hafa verður í huga að fjölmargir viðskiptavinir eignastýringarsviða banka um allan heim hafa orðið fyrir því að undanförnu að verðbréf, sem þeir keyptu í góðri trú, hafa að engu orðið. Skuldabréf íslensku bankanna eru þar ekkert einsdæmi.

Sú neikvæða þróun sem orðið hefur á verði fasteigna og verðbréfa um allan heim hefur leitt til erfiðrar stöðu margra þeirra einstaklinga sem keyptu „equity release"-vörur af Landsbankanum og öðrum bankastofnunum. Þar við bætist, í tilviki Landsbankans í Lúxemborg, að skiptastjórar bankans virðast ætla sér að innheimta fasteignaveðkröfur bankans af mikilli hörku og án þess að bjóða fyrrum viðskiptavinum bankans upp á viðræður um sanngjarna lausn mála. Þetta þykir fyrrum stjórnendum bankans miður og harma það mjög að vera í engri aðstöðu til þess að semja um endurgreiðslutíma við fyrrum viðskiptavini sína með eðlilegri hliðsjón af aðstæðum á markaði.

Það er dapurleg staðreynd að virtur fjölmiðill eins og Morgunblaðið skuli velja að slá því upp í stríðsfyrirsagnastíl að svikamylla hafi verið starfrækt hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Gefið er í skyn að starfsmenn hans hafi í leyfisleysi ráðstafað eignum viðskiptavina bankans og valdið þeim tjóni. Þetta er fjarstæða. Þjónusta bankans var að öllu leyti í samræmi við lög og reglur enda undir ströngu eftirliti fjármálaeftirlits, tryggingaeftirlits og endurskoðenda. Hjá bankanum starfaði framúrskarandi hópur heiðarlegs fagfólks og það er óásættanlegt að vegið sé að starfsheiðri þeirra með þeim hætti sem Morgunblaðið hefur nú gert. Hrun alþjóðlegra fjármálamarkaða hefur haft í för með sér hörmulegar afleiðingar fyrir marga einstaklinga og fyrirtæki um allan heim. Í því efni er hins vegar hvorki við Landsbanka Lúxemborg né starfsmenn hans að sakast.“

Í frétt Morgunblaðsins sem birtist í gær segir franskur viðskiptavinur að hann hafi tapað sex milljónum evra á eignaláninu. Hann gagnrýnir að bankastarfsmenn hafi keypt skuldabréf í Kaupþingi viku fyrir fall bankans fyrir milljón dollara sem hann átti, þrátt fyrir að hann hefði beðið þá um að halda í þá vegna gengis dollarans. 60% fjárins sem bankinn stýrði hafi verið bundin í skuldabréfum íslensku bankanna.

Að sögn fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg var ekki kvartað yfir eignalánunum á meðan bankinn var í fullri starfsemi. Lánin hafi verið lögleg. Hins vegar hefði eftirlitið skoðað ásakanirnar hefðu þær borist fyrir hrun bankanna. Reynist rétt að keypt hafi verið í skuldabréfum íslensku bankanna stuttu fyrir hrun þeirra sé það óeðlilegt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert