Vísbendingar um skemmdir af völdum brennisteinsvetnis

Hellisheiðarvirkjun
Hellisheiðarvirkjun mbl.is/Rax

Ekki er unnt að fullyrða með óyggjandi hætti að brennisteinsvetni sé að drepa mosa næst Hellisheiðarvirkjun. Vísbendingar eru þó um að það eigi þátt í mosaskemmdum í allt að  700 metra fjarlægð frá stöðvarhúsinu. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Dr. Árni Bragason jurtaerfðafræðingur og Eva Yngvadóttur efnaverkfræðingur unnu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. 

Tekin voru sýni við þrjár jarðgufuvirkjanir á Suðvesturlandi og í Bláfjöllum, þar sem svipaðar mosaskemmdir voru greinilegar, en talið er víst að áhrifa jarðhitanýtingar gæti ekki.  Ekki er vitað um þolmörk mosa fyrir brennisteini og vísindamennirnir  treystu sér ekki til að draga afgerandi ályktanir af þeim gögnum sem aflað var.   

Í samantekt rannsóknarskýrslu þeirra kemur þó m.a. fram að marktæk hækkun á styrk brennisteins hafi mælst í mosa næst Hellisheiðarvirkjun í samanburði við mosa í Bláfjöllum.

Þá kemur þar fram að rofskemmdir í mosabreiðum séu greinilegar víða, bæði í Bláfjöllum og á Hellisheiði og að þær séu áberandi undan aðalúrkomuátt.

Einnig kemur fram í skýrslunni að greinilegar skemmdir séu sýnilegar á mosa í nánasta umhverfi virkjunarinnar að hluta til vegna náttúrulegs rofs og að hluta vegna áhrifa frá virkjuninni. Styrkur brennisteins og kvikasilfurs hækki fyrstu 700 m en lækki síðan eftir það í réttu hlutfalli við fjarlægð.  

Í um 1500 m fjarlægð frá stöðvarhúsi, við Suðurlandsveg, er styrkur brennisteins enn nokkuð hærri miðað við mældan styrk í Bláfjöllum sem bendir til að áhrifa frá útblæstri frá stöðvarhúsi gæti ennþá í þessari fjarlægð.

Þær skemmdir sem eru sýnilegar í mosanum á þessum stað benda þó  fremur til rofskemmda af völdum veðráttu en efnaskemmda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert