Ung vinstri græn hafna stjórnarfrumvarpinu

Framkvæmdir í Helguvík.
Framkvæmdir í Helguvík. mbl.is/RAX

Ung vinstri græn skora á þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að greiða atkvæði gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um heimild til samninga við Century Norðurál vegna álversuppbyggingar í Helguvík.

Þetta kemur fram í ályktun sem Ung vinstri græn samþykktu í kvöld, en hún hljóðar svo:

„Nú þegar hafa þingmennirnir Atli Gíslason og Árni Þór Sigurðsson, auk Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra, lýst yfir andstöðu sinni við frumvarpið. Ung vinstri græn krefjast þess að aðrir þingmenn og ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs geri slíkt hið sama. Að greiða fyrir framgangi þessa frumvarps í þinginu, hvort sem er með stuðningi eða hlutleysi, brýtur gegn stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um sjálfbærni og náttúruvernd, fjölbreytni í atvinnulífi, jafnræði og gegnsæi.

Á sama tíma og fjárfestingasamningur sem felur í sér afslætti á opinberum gjöldum og tryggingu gegn öllum mögulegum framtíðarskatthækkunum sérkjörum liggur fyrir Alþingi er áliðnaðurinn í heiminum í molum. Heimsmarkaðsverð á áli hefur hrunið rétt eins og hlutabréf í álfyrirtækja, ekki síst hlutabréf í Century – svo mikið að fyrirtækið mun ekki þola frekara fall. Mikið hefur verið dregið úr álframleiðslu í kjölfarið og hefur Century neyðst til þess að loka einu álveri og draga verulega úr framleiðslu í öðru. Miðað við stöðuna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er alveg ljóst að álfyrirtæki, og allra síst Century, mun ekki geta fjármagnað jafn stórt verkefni og uppbygging álvers í Helguvík er.

Allt tal um að álversuppbyggingu í Helguvík muni veita atvinnulausu fólki nauðsynleg störf er falsvon sem sett er fram af óheiðarlegum stjórnmála- og viðskiptamönnum. Það er því fullkomlega óábyrgt og algjör tímaeyðsla að hálfu Alþingis að eyða tíma sínum í að fjalla um svo vonlausar lausnir í atvinnumálum nú þegar þörf er á raunhæfum lausnum. Það er því ljóst að eini tilgangur iðnaðarráðherra með því að reyna að hraða fjárfestingarsamningnum í gegnum Alþingi er að bjarga hlutabréfunum í Century frá frekara falli auk þess að blekkja nokkur atkvæði út úr kjósendum í prófkjör Samfylkingarinnar.

Ung vinstri græn spyrja hvort það sé í þágu landsmanna, að selja nærri gjaldþrota umhverfissóðafyrirtæki aðgang að náttúruauðlindum okkar á einstökum díl, svo að nýta megi þær í mengandi og ósjálfbæran iðnað sem skilar þjóðarbúinu mjög litlum tekjum en kostar okkur einstaka náttúru og hreinleika landsins?

Ung vinstri græn hvetja þingmenn Vinstri grænna til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva ábyrgðar- og tilgangslausan fjárfestingarsamnings iðnaðarráðherra sem og ál-brjálæðið sem enn á ný tröllríður íslensku samfélagi. Ung vinstri græn biðla einnig til annarra þingmanna, sér í lagi þeirra sem lýstu sig græna fyrir síðustu kosningar, að stöðva þennan tilgangslausa fjárfestingasamning iðnaðarráðherra og snúa sér þess í stað að því að finna raunhæfar lausnir í atvinnumálum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert