Íslenskum skipum fagnað í Grimsby

Ágúst GK-95.
Ágúst GK-95.

Martyn Boyers, framkvæmdastjóri fiskmarkaðarins í Grimsby á Englandi segir komu íslenskra togara mikla búbót fyrir bæinn. „Annað íslenska skipið skapaði jafnvel meiri áhuga á markaðnum, því það sannar að þetta er ekki einsdæmi. Þetta eru góðar fréttir fyrir höfnina hér, fiskmarkaðinn og bæinn í heild,“ segir Boyers. En línuskipið Ágúst GK er nú í höfn í Grimsby. Þar til í síðustu viku höfðu íslensk skip ekki landað þar í tólf ár.

„Ég er himinlifandi yfir því hversu vel hlutirnir hafa gengið og ég vona að þetta haldi áfram í framtíðinni. Fiskurinn selst mjög vel á viðunandi verði. Löndunin vekur mikinn áhuga hjá fiskverkendum, sem er frábært,“ segir Boyers.

Ágúst GK er annað íslenska skipið sem landar þar á einni viku og búist er við tveimur öðrum, að því er segir á á útgerðarfréttavefnum FIS.com Í frétt FIS segir að íslenska útgerðarfyrirtækið Atlantic Fresh leitist eftir því að minnka flutningskostnað sinn með því að sigla með aflann til Grimsby beint frá miðunum, í stað þess að landa á Íslandi og flytja svo aflann með gámum út. Vitnað er í annan stýrimann á Ágústi, Friðmund Guðmundsson, sem segir að skortur á lausafé á íslenskum fiskvinnslumarkaði hafi gert Grimsby meira aðlaðandi sem höfn til að landa aflanum í.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert