Fæstir taka þóknun

Neytendasamtökin fagna því að langflestir vörsluaðilar viðbótarlífeyrissparnaðar ætli ekki að taka þóknun vegna útborgunar sparnaðarins, þrátt fyrir heimild til þess. Af 40 vörsluaðilum viðbótarlífeyrissparnaðar tekur einn þóknun, þrír hafa ekki tekið ákvörðun en tveir vörsluaðilar svöruðu ekki erindi Neytendasamtakanna.

Nýlega voru samþykkt lög sem heimila að greidd verði út ein milljón króna af viðbótarlífeyrissparnaði einstaklings. Heimilt er að greiða upphæðina út á 9 til 12 mánaða tímabili og ber að greiða staðgreiðsluskatt af úttektinni.

Samkvæmt lögunum er fjármálaráðherra heimilt með reglugerð að kveða nánar á um fyrirkomulag eftirlits og útgreiðslu og jafnframt heimild vörsluaðila til innheimtu sérstaks gjalds vegna umsýslu við útgreiðslu séreignarsparnaðar.

Neytendasamtökin hafa mótmælt gjaldtökunni harðlega og hættu þeir, sem áður höfðu tilkynnt að tekin yrði þóknun, við gjaldtökuna.

Á vefsíðu Neytendasamtakanna segir að fjármálaráðneytið muni væntanlega í dag gefa út reglugerð þar sem vörsluaðilum verður heimilt að taka 0,5% þóknun, þó að hámarki 3.000 krónur.
 
Neytendasamtökin hafa nú innt alla vörsluaðila viðbótasparnaðar eftir gjaldtöku. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hafa 40 aðilar heimild til vörslu viðbótarlífeyrissparnaðar.

Aðeins einn aðili, Allianz, segist munu taka þóknun og er skýring hans að Allianz í Þýskalandi taki 15 evrur í millifærslugjald þegar hluti höfuðstóls samnings er tekinn út. Þrír vörsluaðilar, Íslenski lífeyrissjóðurinn, Landsbankinn og Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands, hafa ekki tekið ákvörðun um hvort heimild til þóknunar verður nýtt. Tveir aðilar, Sparnaður og Virðing, svöruðu ekki erindi Neytendasamtakanna.

Frétt á vef Neytendasamtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert