Kræklingarækt verði efld

Sóknarfæri eru talin liggja í útflutningi skelfisks til Evrópu.
Sóknarfæri eru talin liggja í útflutningi skelfisks til Evrópu.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, fékk þau svör í fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra á Alþingi í dag að stefnt væri að því að efla kræklingarækt hér á landi. 

Arnbjörg setti greinina í samhengi við stöðuna á vinnumarkaði og sagði nauðsynlegt að horfa til nýrra verkefna sem eflt gætu efnahag Íslendinga.

„Kræklingarækt er mikil atvinnugrein í Evrópu og árleg neysla kræklings er mjög mikil og nefnd hefur verið talan tvær milljónir tonna. Nú er hins vegar farið að þrengjast um ræktunarsvæði úti í Evrópu og því eru meiri líkur á að markaðsaðstæður eflist hér fyrir okkur Íslendinga,“ sagði Arnbjörg í fyrirspurn sinni.

Unnið hefði verið markvisst að eflingu kræklingaræktunar á Íslandi og náðst góður árangur á því sviði.

Norður í Eyjafirði og víðar um land hefðu margir einstaklingar reynt að ná tökum á kræklingarækt. Framlög hins opinbera hefðu hins vegar verið takmörkuð í þessu þróunarferli.

Betur megi ef duga skal ef ræktunin eigi að fara að skila arði. Framundan væri hjá Hríseyingum að ráða að minnsta kosti átta manns í vinnu til viðbótar við þá fimm sem þar væru hjá Norðurskel við kræklingaeldi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefði haft þessi mál til athugunar í vetur.

Því spurði hún sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hvaða aðgerða grípa ætti til að veita þessari atvinnugrein þann ramma sem nauðsynlegt væri til að hún gæti blómgast.

„Það hlýtur því að vera spurning hvort ekki sé komið að því að hið opinbera móti stefnu utan um atvinnugreinina,“ sagði Arnbjörg.

Erlendir aðilar hefðu sýnt áhuga á að fjárfesta í greininni á Íslandi.

Gera þyrfti frekari rannsóknir á ræktunarsvæðum og almennt að efla rannsóknir í greininni.

„Munaðarlítil“ atvinnugrein

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svaraði því til að sanngjarnt væri að viðurkenna að kræklingaræktin hefði kannski ekki verið munaðarlaus, heldur fremur munaðarlítil, og „ekki nægjanlega vel að henni hugað“.

„Ég er ekki að ásaka þar einn eða neinn sérstaklega. Ég held einfaldlega að það hafi verið ákveðnar efasemdir,“ sagði Steingrímur um afstöðu manna til framtíðarmöguleika greinarinnar hér á fyrri árum.

„Ég vona nú að það sé að afsannast,“ sagði Steingrímur.

Athyglisverður árangur hefði náðst á þessu sviði í Hrísey. Kanadamenn hefðu komið með þekkingu inn í greinina.

Arnbjörg spurði einnig um stöðu umhverfisvöktunar í tengslum við ræktun af þessum toga og svaraði Steingrímur þá því til að á undanförnum árum hefði verið ráðstafað á fjárlögum þremur milljónum króna til rannsókna sem snúi að umhverfisvöktun.

Þessar rannsóknir sneru að mengun og eiturþörungum, svo eitthvað væri nefnt.

Gert væri ráð fyrir að nefndarstarfi um rannsóknartækifæri í greininni lyki síðar á þessu ári.

Arnbjörg Sveinsdóttir, alþingismaður
Arnbjörg Sveinsdóttir, alþingismaður
Steingrímur J. Sigfrússon sjávarútvegsráðherra telur vel þess vert að efla …
Steingrímur J. Sigfrússon sjávarútvegsráðherra telur vel þess vert að efla kræklingarækt hér á landi. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert