Lentu í höndunum á ævintýramönnum

Hreinn Loftsson.
Hreinn Loftsson. mbl.is

„Þegar ég var í nefndinni þá vorum við uppfullir af hugmyndum um að það ætti að nýta einkavæðinguna til að byggja upp þekkingu, reynslu og sambönd við erlenda aðila á sviði bankastarfsemi. Við töldum að þetta hefði verið svo ófaglegt og pólitískt hérna árum saman og vildum breyta því. Við litum svo á að þarna væri um kjarnann í hverju efnahagskerfi að ræða og þess vegna væri mjög mikilvægt að það lenti ekki í höndunum á einhverjum ævintýramönnum. Það hins vegar blasir við núna að það er það sem gerðist,“ segir Hreinn Loftsson, sem var formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu frá árinu 1992 og fram í febrúar 2002. Hreinn tók þátt í því að reyna að selja Landsbankann til erlendra aðila áður en hann lét af störfum en kom ekki að sölunni til íslensku kjöflestufjárfestanna.

Hann segir að búið hafi verið að fresta frekari tilraunum til að selja bankana þegar hann hætti. „HSBC hafði unnið að sölunni í samstarfi við okkur, en það var settur ákveðinn endapunktur á hana í desember [2001] vegna þess að viðunandi kaupverð náðist ekki. Nægur áhugi var heldur ekki fyrir hendi.

Menn geta auðvitað selt allt ef þeir eru tilbúnir að fara nógu langt niður í verði. En við unnum eftir verklagsreglum og það voru ákveðin markmið í gangi. Meginmarkmiðið var fólgið í því að fá inn erlenda bankastofnun til að tryggja að kjölfestufjárfestar í bönkunum væru með reynslu af bankarekstri. Eftir að ég hætti í framkvæmdanefndinni gerist það greinilega að öllum þessum reglum og markmiðum er ýtt til hliðar.“ Hreinn segir að á þeim tíma sem hann sat í nefndinni hafi alltaf ríkt mikill skilningur á því að það mætti ekki blanda stjórnmálum inn í einkavæðingarferlin, þótt andstæðingar einkavæðingar hafi haldið öðru fram.

„Við fórum meðal annars eftir alþjóðlegum reglum sem sögðu að það væri ekki heppilegt að aðilar sem höfðu verið í stjórnmálum, eða nátengdir þeim, kæmu til greina sem kaupendur. Af þeirri ástæðu hefði aldrei komið til greina af minni hálfu, hefði ég enn verið í nefndinni, að S-hópurinn kæmi til greina sem kaupandi, eins tengdur og hann var stjórnmálunum, svo dæmi sé tekið. Þarna var fyrrverandi viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri [innsk. blaðam. Finnur Ingólfsson]. Það er staðreynd.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert