Sömu flatskjáunum rænt tvisvar

Flatskjáir virðast enn vera vinsælir
Flatskjáir virðast enn vera vinsælir mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Lögreglan á Selfossi handtók tvo menn um fimmleytið í nótt með drekkhlaðinn bíl af þýfi sem reyndist vera úr sumarbústöðum við Þverlág á Flúðum. Að sögn lögreglunnar var bíllinn svo niðursiginn að aftan að hann vakti athygli við keyrslu og reyndist við nánari athugun vera smekkfullur af þýfi.

Á meðal þess sem í bílnum fannst voru þrír flatskjáir sem voru nú handlagðir af lögreglu í annað skipti á stuttum tíma eftir rán. Þeim hafði í millitíðinni verið komið aftur til eigenda sinna en fengu ekki að vera lengi í friði heldur var nú rænt í annað sinn og voru að sögn lögreglu enn merktir með málanúmerum lögreglu frá síðasta ráni. Ekki er þó um sömu þjófa að ræða, þótt þeir hafi ásælst sömu muni. Auk flatskjánna voru í bílnum verkfæri og ýmsir aðrir munir úr nokkrum sumarbústöðum auk mikils magn af áfengi.

Mennirnir gáfu sjálfir þá skýringu að þeir hefðu fundið góssið í vegkanti. Lögreglan hvetur eigendur sumarbústaða á svæðinu að gera sér ferð til að kanna hvort allt sé með felldu í bústöðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert