Bærinn tók lit af nábýli við Völlinn

Sigrún Ásta Jónsdóttir.
Sigrún Ásta Jónsdóttir. mbl.is/Svanhildur

Sýningin „Völlurinn“ verður opnuð í Duushúsum í Reykjanesbæ í dag, en 60 ár eru liðin frá því Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið – NATO. 

„Okkar áhersla í sýningunni er að fjalla um þau fjölbreyttu störf sem unnin voru uppi á Velli. Í hverju starfsemi bandarísku herstöðvarinnar fólst og hvaða áhrif hún hafði sem vinnustaður og nágranni við byggðarlögin í kring. Margir unnu þarna alla sína starfsævi og þurftu að takast á við óvenjulegt vinnuumhverfi,“ sagði Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, um sýninguna.

Dagurinn í dag eru sögulegur dagur. 60 ár eru liðin frá því að á Alþingi Íslendinga var samþykkt þingsályktunartillaga um inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið – Nató. Andstæðingar flykktust á Austurvöll til þess að láta óánægju sína í ljós, m.a. með grjóti, eggjum og mold. Ýmislegt í þessum 60 ára gömlu atburðum hefur kallast á við atburðina síðustu mánuði.

Mestu breytingarnar í lífi íbúa í Njarðvík, Keflavík og Höfnum, nú Reykjanesbæ, urðu hins vegar hinn 5. maí 1951 þegar varnarsamningur við Bandaríkin var undirritaður í Reykjavík.

Þetta þýddi að bandarískt herlið yrði staðsett í landinu. Bandaríski herinn hafði þá þegar byggt upp herstöð á Miðnesheiði, eftir að íslensk stjórnvöld höfðu skrifað undir herverndarsamning við Bandaríkin áratug fyrr, og í kjölfar varnarsamningsins var þeirri uppbyggingu haldið áfram. Í daglegu tali var herstöðin kölluð Keflavíkurflugvöllur, Völlurinn eða Beisinn, dregið af enska orðinu Base.

Í huga flestra Íslendinga var Keflavíkurflugvöllur fyrst og fremst pólitískt bitbein. Fyrir Suðurnesjamenn var hann stór vinnuveitandi og nágranni innan girðingar. Völlurinn var ekki aðeins herstöð, heldur heilt byggðarlag með skólum, kirkju, sjúkrahúsi, verslunum, kvikmyndahúsi, skemmtistöðum, sjónvarpi, útvarpi, blaðaútgáfu og öðrum fylgifiskum daglegs lífs, verkstæðum og vinnustöðum. Þegar mest var töldu hermenn, starfslið hersins og hinna ýmsu stofnana á stöðinni og fjölskyldur þeirra um 5.700 manns.

Samfélagið tók ákveðinn lit af nábýlinu. Suðurnesjamenn voru þekktir fyrir að keyra á flottustu bílunum, vera í takt við nýjustu tónlistina, Kanasjónvarpið og útvarpið ómaði um byggðina, á mörgum heimilum mátti sjá amerísk tæki með tilheyrandi straumbreytum og húsgögn, jafnvel matvæli og bjór. Áhrif Vallarins leyndi sér heldur ekki í skipulagningu stórverslana á höfuðborgarsvæðinu, rekstri sjónvarps- og útvarpsstöðva og svo mætti lengi telja. Það eru m.a. þessi áhrif sem Byggðasafn Reykjanesbæjar vill fanga á sýningunni Völlurinn.

Að sögn Sigrúnar Ástu reyndi safnið að viða að sér gömlum herminjum og minningum og voru ýmsar leiðir farnar.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert